Salbjörg Ragna valin í körfuboltalandsliðið
Hrútfirðingurinn Salbjörg Ragna Sævarsdóttir hefur verið boðuð í landslið kvenna í körfuknattleik en framundan er landsleikjagluggi hjá liðinu sem er liður í undankeppni EM, EuroBasket Women’s 2021. Kemur Salbjörg inn fyrir Hildi Björgu Kjartansdóttur, Val, sem ennþá er meidd og verður ekki leikfær þegar haldið verður út.
Salbjörg Ragna á að baki sex landsleiki en hún hefur verið ein af lykilleikmönnum Keflvíkinga síðustu ára og íþróttamaður USVH var hún kjörin fyrir árið 2016. Á heimasíðu KKÍ kemur fram að nú sé æfingabann sem geri allan undirbúning erfiðari, en biðlað hefur verið til yfirvalda um undanþágu fyrir ellefu leikmenn hér á landi til einstaklingsæfinga innandyra sem myndi hjálpa liðinu mikið.
Leikirnir fara fram í landsliðsglugga FIBA dagana 8.-15. nóvember og verða leiknir á Grikklandi í Heraklion á eyjunni Krít í öruggri „bubblu“ sem FIBA setur upp fyrir öll liðin í A-riðli undankeppninnar. Farið verður eftir ströngum reglum innan hennar með sóttvarnir. Leikirnir í undankeppninni hjá öllum liðum í nóvember áttu að vera heima og að heiman en hefur nú verið breytt fyrir alla riðla í einangraða leikstaði, líkt og NBA-deildinni vestanhafs gerði á Florída nú í haust. Íslenska liðið heldur utan 7. nóvember til Grikklands og æfir saman í „bubblunni“ en leikdagar verða 12. og 14. nóvember.
Tengdar fréttir:
Salbjörg Ragna er íþróttamaður USVH 2016
Lykilmaður hjá Keflavík
Salbjörg Ragna lék sinn fyrsta A-landsleik
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.