Sala á heimaslátruðu lambakjöti kærð til lögreglu
Matvælastofnun hefur óskað eftir rannsókn lögreglu á markaðssetningu á heimaslátruðu lambakjöti á bændamarkaði á Hofsósi 30 september sl. Um svokallaða örslátrun var að ræða og til þess gerð að vekja athygli á þeim möguleika að bændur gætu slátrað heima á löglegan hátt.
„Örslátrunin var tilraun til að láta á það reyna hvort sauðfjárbændur séu í stakk búnir til að auka verðmætasköpun í sveitum landsins með slátrun, vinnslu og sölu beint til neytenda. Niðurstaðan sýnir ótvírætt að slíkt er mögulegt, ef rétt er að málum staðið og ef lögð verður vinna í að láta reyna á undanþáguákvæði evrópsku matvælalöggjafarinnar,“ sagði Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, í viðtali við Feyki í október en til þess þyrfti reglubreytingu. Hann sagði að Matís væri í mun að reglugerðarumhverfið verði rýmra, bændum og neytendum til hagsbóta. "Í þessu augnamiði voru m.a. framkvæmdar ítarlegar örverumælingar á lambsskrokkunum og komu þær mjög vel út," sagði Sveinn.
Samkvæmt lögum um slátrun og sláturafurðir má einungis dreifa og selja kjöt sem hefur verið slátrað í löggiltu sláturhúsi og heilbrigðisskoðað af dýralækni á vegum Matvælastofnunar og segir á heimasíðu MAST að meint brot felist í því að taka til slátrunar sauðfé utan sláturhúss og setja á markað afurðirnar af því fé án þess að það hafi verið heilbrigðisskoðað í samræmi við gildandi löggjöf.
Tengd frétt: Innköllun á heimaslátruðu lambakjöti
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.