Saga hrossaræktar – lagaumhverfi greinarinnar :: Kristinn Hugason skrifar
Í síðustu grein var botninn sleginn í umfjöllun um félagskerfi hrossaræktarinnar. Í þessari grein verða gerð skil megin dráttunum í þróun lagaumhverfis hrossaræktarstarfsins í landinu. Ekki er hér um tæmandi yfirlit að ræða heldur verður stiklað á helstu vörðunum.
Lagarammi um hrossaræktarstarfið, fyrstu skrefin
Í Landbúnaðarsögu Íslands segir svo frá fyrstu löggjöf um hrossarækt hér á landi: „Á Alþingi 1891 flutti Ólafur Briem þingmaður Skagfirðinga frumvarp til laga um samþykktir um kynbætur hesta. (Frumvarpið fékk góðan byr og var samþykkt með nokkurri viðbót og síðan staðfest sem lög frá Alþingi og hétu „lög um kynbætur hesta“ (lög nr. 34 frá 11. des. 1891). Með lögunum var sýslunefndum heimilað, þætti þeim það „nauðsynlegt eða hagfellt, að gjöra samþykkt annaðhvort fyrir alla sýsluna eða fyrir nokkurn hluta hennar“ um kynbætur hesta. [....].
Um efni slíkra samþykkta voru lögin fáorð. Þar mátti kveða á um þau atriði „sem áríðandi eru fyrir hestaræktina í því héraði, er samþykktin nær yfir, svo sem um geldingu hestfolalda og graðhesta , sem álitnir eru lítt hæfir til undaneldis.“ Samþykkt skyldi ávallt kveða nákvæmlega á um nauðsynlegt eftirlit með því að henni væri framfylgt. Á þessum árum var mjög tíðkað að setja lög um heimildir sýslu- eða sveitarfélaga til að setja sér samþykktir um ýmis framfaramál þessu lík og hvöttu þau til framkvæmda almennings á viðkomandi sviðum.
Lögin frá 1891 leiddu fljótlega til þess að gerðar voru hrossaræktarsamþykktir í einstökum héruðum og árið 1901 höfðu níu slíkar samþykktir verið gerðar. Þá fyrstu gerðu Austur-Skaftfellingar árið 1894. [ ..... ].
Á Alþingi 1901 var það aftur Ólafur Briem, þingmaður Skagfirðinga, sem sýndi frumkvæði í hrossaræktarmálum og flutti frumvarp til laga um viðauka við lögin frá 1891 og varð það frumvarp að lögum. Viðaukinn var sá að bannað var með landslögum „að láta graðhesta eldri en 1½ árs ganga lausa innan um hross á afréttum eða í heimahögum.“ Gæslulausa graðhesta sem fundust annars staðar „en í heimalandi eigenda eða geymanda“ skyldi taka og fara með sem óskilafé. Undanþegnir þessu voru viðurkenndir undaneldishestar í samræmi við löggilta hrossaræktarsamþykkt. Samsvarandi ákvæði um bann við lausagöngu graðhesta hefur æ síðan verið í landslögum.“ (Landbúnaðarsaga Íslands, 3. bindi, bls. 239. Jónas Jónsson, Skrudda, 2013).
Þróun mála fram til dagsins í dag
Eftir að Íslendingar fengu heimastjórn var fyrsta skrefið í þessum málaflokki að samþykktar voru á Alþingi breytingar á lögum frá 1901 og hert á banni við lausagöngu stóðhesta. Árið 1931 voru svo fyrstu heildarlög um búfjárrækt samþykkt frá Alþingi (lög nr. 32/1931), þar var m.a. fjallað um tilhögun sýningahalds o.fl. Ýmsum þáttum þar um var svo breytt töluvert með nýjum búfjárræktarlögum árið 1942. Þá jókst áherslan á sveitarsýningar, héraðssýningum var hins vegar fækkað og sýningarsvæðin sem þær náðu til stækkuð.
Árið 1948 voru ný búfjárræktarlög samþykkt (lög nr. 19/1948). Þar voru ákvæði um skipulag reiðhestaræktunarinnar með samstarfi BÍ og samtaka hestamannafélaganna (LH hafði þá ekki enn þá verið stofnað) um landssýningu fjórða hvert ár. Árið 1957 var svo samþykkt breyting á gildandi búfjárræktarlögum þess efnis að heimilað var að fella saman héraðssýningar BÍ og fjórðungsmót LH.
Árið áður, 1956, var fyrsta fjórðungsmótið undir merkjum LH haldið; fjórðungsmót LH fyrir Kjalarnesþing og fór fram á skeiðvellinum við Elliðaár en ári fyrr höfðu sunnlensku hestamannafélögin staðið fyrir fjórðungsmóti á Gaddstaðaflötum við Rangá. Árið 1959 var svo fyrsta sameiginlega fjórðungsmót LH og BÍ haldið á Sauðárkróki.
Árið 1973 voru ný búfjárræktarlög (lög nr. 31/1973) samþykkt. Margvísleg nýmæli sem snertu hrossaræktina voru í lögunum, m.a. greinargott skipulag um sýningarhaldið; a) árlegar sýningar hjá búnaðar- og hrossaræktarsamböndunum á ungum kynbótahrossum og hrossum sem ekki höfðu fengið 1. verðlaun, b) fjórðungssýningar í hverjum landsfjórðungi þriðja eða fjórða hvert ár, c) landssýningar þriðja eða fjórða hvert ár, d) heimilt var áfram að sameina fjórðungs- og landssýningar BÍ fjórðungs- og landssýningum LH.
Á grundvelli a) liðarins fjölgaði kynbótasýningum en annað sýningarhald var í föstu formi. Ástæða ákvæðisins um að banna endursýningar á 1. verðl. hrossum var sú að verðlaunafé var greitt ef það einkunnastig náðist. Í lögunum var einnig ákvæði sem gerði ráð fyrir starfsemi stofnræktarfélaga en um þau hefur verið fjallað stuttlega í grein nú nýverið.
Þá var í lögunum nýtt ákvæði um stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins með það hlutverk að styrkja og lána hrossaræktarsamböndunum fé til kaupa á kynbótahestum sem ella kynnu að verða seldir úr landi, sjóðurinn starfar enn þá en með gerbreyttu sniði. Einnig var í lögunum ákvæði um svokallaða sýningarnefnd BÍ og LH sem var fimm manna nefnd og skipuðu hana tveir fulltrúar LH, tveir starfandi héraðsráðunautar og hrossaræktarráðunautur BÍ (formaður).
Árið 1989 voru ný búfjárræktarlög (lög nr. 84/1989) samþykkt og ári síðar, árið 1990, tók hrossaræktarnefnd til starfa í samræmi við ákvæði laganna, skv. þeim fengu búgreinafélögin, þ.m.t. Félag hrossabænda, aðild að búfjárræktarnefnd sinnar búgreinar. Nefndirnar lutu formennsku landsráðunauta BÍ, skv. lögunum skyldu ráðunautar skipa meirihluta hverrar nefndar eins og verið hafði í sýningarnefndi BÍ og LH en hrossaræktarnefnd leysti hana af hólmi.
Á grunni þessara nýju búfjárræktarlaga og reglugerðar við þau voru settar heildarreglur um dóma kynbótahrossa árið 1990 og gefnar út á þremur tungumálum árið 1992, sjá ritið Kynbótadómar og sýningar; Studhorse Judging and Studshows; Zuchtpferdebeurteilung und Körungen, Búnaðarfélag Íslands, Búfjárræktin, ritstjóri Kristinn Hugason.
Í ritinu var auk heildarreglna um sýningahald og dómstörf, birtur stigunarkvarði sem í framkvæmd gerbreytti öryggi dóma og jók dreifni einkunna sem hafði ómæld jákvæð áhrif á dómstörfin og þar með á framvindu kynbótanna sem m.a. birtist í hækkuðu arfgengi eiginleikanna sem er klár vitnisburður um aukið öryggi í dómstörfunum.
Árið 1998 voru samþykkt ný heildarlög sem m.a. gilda um hrossarækt, búnaðarlög nr. 70/1998. Gilda þau enn þá með síðari breytinum. Samkvæmt búnaðarlögunum er fagráðum búgreinanna falin mikil völd en hrossaræktin var á undan að taka það fyrirkomulag upp en árið 1996 tók fagráð í hrossarækt við störfum hrossaræktarnefndar undir formennsku og með meirihlutaaðild Félags hrossabænda. Er það fyrirkomulag enn við lýði enda í samræmi við ákvæði núgildandi laga, búnaðarlaganna.
Niðurlagsorð
Þetta er síðasta greinin hér í Feyki fyrir sumarleyfi en í fyrsta blaði september mánaðar verður að öllu forfallalausu haldið áfram með skrif þessi um sögu hrossaræktar, umfjöllunarefnið enda hvergi nærri tæmt.
Kristinn Hugason
forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins
Áður birst í 21. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.