Safnplatan með Presley fauk út í loftið eftir skólaball í Akraskóla / SVEINN ARNAR
Að þessu sinni leitaði Tón-lystin fanga á nesinu Akra og fann þar mann ættaðan úr hreppnum Akra. Um er að ræða snillinginn Svein Arnar Sæmundsson, uppalinn á Syðstu-Grund í Blönduhlíð og afkvæmi Þorbjargar Eyhildar Gísladóttur og Sæmundar Sigurbjörnssonar. Hljóðfæri Sveins Arnars eru orgel og píanó auk mannsraddarinnar. Sveinn starfar sem organisti og kórstjóri við Akraneskirkju og ekki fyrir svo alls löngu hljóp hann í skarðið sem kórstjóri Heimismanna.
Spurður um helstu tónlistarafrekin svarar Sveinn: -Ég á erfitt að meta það og lít ekki á neitt sem ég hef gert í tónlistinni sem einhver afrek. Læt tónlistina leiða mig áfram og ef vel er með farið þá gerist alltaf eitthvað gott. Og sem betur fer hefur margt jákvætt gerst á mínum tónlistarferli. Til dæmis var ég valinn bæjarlistamaður Akraness árið 2012. Það var dágóð viðurkenning sem ég fékk fyrir mitt framlag til menningarmála á Akranesi.
Hvaða lag varstu að hlusta á? Rétt í þessu var ég að hlusta á sönghópinn King’s Singers flytja lagið skoska þjóðlagið Loch Lomond en ég var svo heppinn að fá inni á námskeiði hjá þeim ásamt Kammerkór sem ég leiði, síðasta haust. Stórkostlegur sönghópur.
Uppáhalds tónlistartímabil? Ég er sennilega ansi gamaldags í þessu en í seinni tíð hef ég verið hrifinn af tímbilinu á milli 1950 og 1960. Sinatra, Elvis, Bing Crosby og fleira gott fólk hefur heillað mig. Síðan er það náttúrulega íslenska sveitaballatímabilið með öllum sínum afbragðs hljómsveitum eins og Sálinni, Sólinni, Bítlavinafélaginu, Stjórninni, GCD og öðrum góðum böndum sem fóru um héröð.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég hlusta ansi mikið á kórtónlist enda er það hluti af mínu starfi. En annars er ég alæta á tónlist að mestu en undanfarin ár hefur jazzinn gert töluvert fyrir mig.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var ansi margt sem var hlustað á en ég man sérstaklega eftir að Dúmbó og Steini, Elvis og Brimkló hljómuðu töluvert.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Tvöföld safnplata með Elvis Presley. Hún fauk síðan út í loftið í einhverjum norðangarra eftir skólaball í Akraskóla.
Hvaða græjur varstu þá með? Heima á Grund var til forláta mubla sem innihélt bæði plötuspilara og útvarp. Var mikið notað. Síðar fékk ég tvöfalt kasettutæki í fermingargjöf.
Hvert var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Mér er sagt að fyrsta lagið sem ég fílaði í botn og söng hástöfum hafi verið Ég langömmu á. Sel þetta samt ekki dýrara en ég keypti það.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Held að það sé fátt sem eyðileggur daginn fyrir mér þegar tónlist er annars vegar.
Uppáhalds Júróvisjónlagið? Ég er ekki mikið inni í þeim heimi en man að þegar ég var patti þá var Waterloo mitt uppáhald. Og sperri eyrun enn í dag þegar ég heyri það.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Það færi nú eftir hvað fólk væri í partýinu en ég myndi örugglega henda einhverju gömlu og góðu með Sálinni, Mannakornum og Elvis í græjurnar. Og þar fram eftir götunum. Reyndar hef ég átt það til í gegnum tíðina að skella kórtónlist á fóninn. Sumum til mikillar gleði en öðrum ekki.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Sveitasinfoníu Beethovens
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég færi með konunni minni en margir staðir kæmu til greina. Væri t.d. gaman að fara til Vínar eða til Salzburg og upplifa tónlistarmenninguna á þessum slóðum og sækja góða tónleika.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? Ég man nú ekki eftir að hafa átt neinar sérstakar græjur í mínum bílum. Eignaðist bíl frekar seint. En þeir voru margir rúntarnir sem farnir voru úr sveitinni um helgar út á Krók og þá var ég oftast farþegi. Í minningunni er Jethro Tull ansi ofarlega í huga.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Elvis var minn maður en ég hefði ekki viljað vera hann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.