Safnað fyrir Sigrúnu Margréti :: Með alvarlegan nýrnasjúkdóm

Sigrún Margrét Einarsdóttir er lítil stúlka sem fæddist þann 3. september síðastliðinn á Landspítalanum við Hringbraut. Sigrún Margrét er fyrsta barn foreldra sinna, þeirra Jónu Kristínar Vagnsdóttur frá Minni-Ökrum í Skagafirði og Einars Ara Einarssonar frá Skagaströnd, og er litla fjölskyldan búsett á Minni-Ökrum.

Á 34. viku meðgöngunnar kom í ljós að Sigrún væri með alvarlegan nýrnasjúkdóm en nýru hennar voru langt yfir meðalstærð og einnig voru blöðrur á þeim og kom í ljós um tveggja mánaða aldur að um er að ræða nýrnasjúkdóm sem gengur undir nafninu NPH (Juvenile nephronophthisis) eða MCKD (Medullary cystic kidney disease).

Veikindi litlu stúlkunnar hafa það í för með sér að fjölskyldan þarf að fara á tveggja vikna fresti til Reykjavíkur í blóðprufur og í eftirlit hjá nýrnasérfræðingum. Fylgjast þarf með blóðþrýstingi hennar og er hann mældur vikulega, svo og þyngd hennar, ýmist á Heilsugæslunni á Sauðárkróki eða á Landspítalanum. Síðustu vikurnar hefur hún verið tengd við vél sem skammtar henni visst magn af mjólk á klukkutíma í gegnum sondu, allan sólahringinn.

Í framtíðinni mun Sigrún Margrét þurfa að fara í nýrnaígræðslu en það verður ekki gert fyrr en hún hefur náð tveggja ára aldri. Eins og staðan er nú er hún á tveimur blóðþrýstingslyfjum en ef starfseminni hrakar mikið fyrir tveggja ára aldurinn mun hún þurfa að fara í blóðskiljun.

Þrátt fyrir erfiðan sjúkdóm og fleiri sjúkrahúsheimsóknir á sinni stuttu ævi en margur þarf á að halda á allri lífsleiðinni er sú stutta glöð og kát og brosir framan í heiminn.

Það segir sig sjálft að tíðar sjúkrahúsferðir og langdvalir að heiman eru kostnaðarsamar og því hefur verið stofnaður styrktarreikningur fyrir fjölskylduna þar sem hægt er að leggja þeim lið. Reikningsnúmerið er 0370-13-400966 og kennitalan 210995-3589.
/@FE

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir