Sætur sigur í höfn
Stelpurnar í Tindastóli/Neista fengu sín fyrstu stig í deildinni er þær lögðu Draupni að velli í hörkuleik á Sauðárkróksvelli í gærkvöld.
Leikurinn var ekki tilþrifamikill lengst af leiktímanum, en þó sáust færi á báða bóga. Boltinn náði ekki að ganga nægilega milli leikmanna og sóknir enduðu hættulausar hjá Tindastóli/Neista. Fyrri hálfleikur frekar tíðindalítill og T/N náði ekki að skapa sér nein veruleg færi undan norðanáttinni þó mikið hafi verið reynt í lok fyrri hálfleiks. Staðan jöfn í hálfleik 0-0.
Í seinni hálfleik byrjuðu Draupnisstúlkur betur og áttu verulega hættuleg færi en T/N mega þakka frábærri markvörslu hjá Tótu markmanni sem stóð sig frábærlega, að ekki fór illa. Stelpurnar komust betur og betur inn í leikinn og börðust af krafti og þegar fór að síga á seinni partinn fóru þær að skapa sér færi og náðu að ógna marki gestanna og uppskáru mark rétt undir lokin þegar Halla Mjöll Stefánsdóttir náði að pota boltanum inn eftir aukaspyrnu.
Skömmu síðar átti Brynhildur frábært upphlaup og skot á mark sem markmaður Draupnis náði að verja glæsilega á annarri en hún lék síðasta stundafjórðunginn haltrandi eftir samstuð við Brynhildi sem sýndi mikla grimmd í leiknum og var óheppin að skora ekki mark í kvöld.
Síðustu mínúturnar voru spennuþrungnar en þegar áhorfendur biðu eftir því að dómarinn liti á klukku sína og flautaði leikinn af, mátti litlu muna að Draupnir næði að jafna leikinn eftir þunga sókn þegar einn leikmaður renndi boltanum framhjá Tótu og sem betur fer markinu líka.
Dómarinn flautaði leikinn af stuttu síðar og mikil fagnaðarlæti brutust út í herbúðum Tindastóls/Neista enda fyrstu stigin í höfn og liðið komið upp fyrir Draupni í 5. sætið með jafnmörg stig en með betra markahlutfall.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.