Sætir sigrar fyrir austan

Fjórði flokkur kvenna Tindastóls/Neista gerði góða ferð austur á land um síðustu helgi þegar þær mættu jafnöldrum sínum í Fjarðabyggð/Leikni og Hetti/Einherja og unnu báða sína leiki.

Fyrri leikurinn átti að fara fram á Eskifirði á laugardeginum en vegna slæmrar veðurspár var hann færður í hina glæsilegu fótboltahöll á Reyðarfirði þar sem alltaf er logn og blíða. Stelpurnar í T/N byrjuðu af krafti og áttu hvert færið af öðru en inn vildi boltinn ekki. Þvert gegn gangi leiksins komust Austfirðingar yfir eftir að víti var dæmt á okkar lið er boltinn fór í hönd varnarmanns. Skömmu síðar svöruðu norðanstúlkur fyrir sig þegar Guðný Vaka Björnsdóttir skoraði framhjá markmanni heimamanna. Áfram héldu T/N að sækja stíft að marki andstæðinganna og margar spyrnur gerðar að marki en boltinn rataði oftast framhjá markinu eða í hendur markmannsins. Staðan hélst óbreytt fram að seinni hluta leiksins þegar hreinsað var frá marki T/N og boltinn fór til Hugrúnar sem tók á sprett upp allan völlinn að marki andstæðinga og gaf laglega sendingu á Guðnýju Vöku sem var mætt á svæðið og potaði boltanum inn og kom Tindastóli/Neista yfir 2-1 sem urðu lokatölur leiksins.

Daginn eftir var leikið gegn Hetti/Einherja í þoku og súld á Vopnafirði og varð það sannkallaður markaleikur. Aðstæður á vellinum voru nokkuð ólíkar þeim sem voru daginn áður þar sem völlurinn var blautur og sleipur. Mörkin létu ekki á sér standa og strax í upphafi skoraði Guðný Vaka sem átti eftir að láta til sín taka fyrir framan markið. H/E svaraði fljótlega fyrir sig og leikurinn var æsispennandi með færum á báða bóga. Endaði þó leikurinn með sigri Tindastóls/Neista 7-4 og gerði Guðný Vaka 5 mörk, Anna Lilja 1 og Guðlaug Rún 1.

Allar sýndu stelpurnar góða leiki og náðu oft að spila skemmtilega með Ólínu á miðjunni sem límir saman vörn og sókn. Vörnin var sterk þar sem Fanney Þorgils stendur eins og klettur í öftustu víglínu og fáir sem hlaupa hana af sér og Vava örugg í markinu. Þá er sóknin öflug með tvær sprettharðar stelpur þær Hugrúnu og Guðnýju Vöku sem ná að mynda skemmtilegt sóknarpar og reyndar var sama hver var á vellinum því allar lögðu sig 100% fram, ákveðnar í að sigra og hafa gaman af og það tókst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir