Sæluvikan að bresta á
„Skipulagning Sæluviku gengur vel og viðburðir eru enn að bætast við,“ segir Heba Guðmundsdóttir sem hefur veg og vanda af skipulagningu Sæluvikunnar líkt og undanfarin ár og má því mögulega kalla verkefnastjóra Sæluvikunnar. „Það verða flestir fastir liðir á sínum stað á Sæluviku og mér finnst alltaf vera metnaður og spenna fyrir því að vera með hjá þeim sem skapað hafa þá hefð að standa fyrir viðburði á Sæluviku.“
Er eitthvað nýtt og spennandi í Sæluviku? „Mjög skemmtileg og spennandi nýjung í ár eru tónleikarnir Heima í stofu. Bráðskemmtileg hugsun en þetta tónleikaform er mjög þekkt erlendis. Um er að ræða svokallaða heimatónleika, tónleika sem fara fram í heimahúsum og á öðrum óhefðbundnum tónleikastöðum. Fyrirkomulagið er þannig að nokkrir flytjendur halda tólf stutta tónleika á sex stöðum á einu kvöldi. Gestum býðst að kaupa einn aðgöngumiða sem gildir á alla þessa tónleika sem munu hefjast á mismunandi tímum til að gefa gestum kost á að sjá sem flesta. Í lok kvöldsins sameinast svo allt listafólkið á einn stað á lokatónleikum sem munu fara fram á Kaffi Krók.
Leiksýning Leikfélags Sauðárkróks er líka alltaf hápunktur en það hefur verið áratuga löng hefð fyrir því að Leikfélagið frumsýni nýtt leikrit á setningardegi Sæluviku. Samfélagsverðlaun Skagafjarðar verða veitt á setningu Sæluviku sem er alltaf spennandi. Mjög margar tilnefningar hafa borist sem sýnir hvað það er magnað fólk sem býr í Skagafirði. Fólk sem er reiðubúið til að gefa mikið af sér án þess að ætlast til mikils í staðinn.“
Hverjir eru svona helstu dagskrárliðirnir? „Dagskrá Sæluviku hefst formlega á setningu Sæluviku í Safnahúsinu sunnudaginn 28. apríl kl. 13 en Sæluvikan teygir sig þó töluvert út fyrir þessa viku en fyrstu viðburðir fara fram 24. apríl. Leikfélag Sauðárkróks sýnir leikritið Litla hryllingsbúðin, það verður gömludansaball í Miðgarði, Tekið til kostanna fer fram í reiðhöllinni, tónleikarnir Heima í stofu fara fram á mismunandi stöðum á Sauðárkróki og Kvennakórinn Sóldís, Skagfirski Kammerkórinn, Kirkjukór Sauðárkróks og Vorvindar glaðir halda tónleika. Vortónleikar Tónlistarskóla Skagafjarðar fara fram þessa viku, Leikhópurinn Lotta verður með leiksýningu í grunnskólum Skagafjarðar, það verður ljósmyndasýning í Safnahúsinu þar sem ljósmyndir úr safni Stebba Ped verða sýndar, það verða bíósýningar í Króksbíó, opið hús í Dagdvöl aldraðra, kaffihlaðborð í Árgarði, Listasýning á verkum notenda Iðju-Hæfingar í Lands-bankanum, sumarsælukaffi fyrir eldri borgara í Árskóla, Handverkshús Aðalsteins verður opið og það verða hestamót, svo eitthvað sé nefnt. Svo mun hlaupa-hópurinn 550 rammviltar standa fyrir Sæluvikuhlaupi 1. maí. Það ættu því allir að finna eitthvað fyrir sig á Sæluviku.“
Hvar getur folk skoðað dagskrá Sæluvikunnar? „Dagskrá Sæluviku er að finna á heimasíðu Sæluviku, www.saeluvika.is, í Sjónhorninu og á Facebook síðu Sæluviku. Það ætti því enginn að missa af neinu,“ segir Heba og bætir við: „Við hvetjum Skagfirðinga til þess að taka þátt í Sæluviku. Slökkvum á sjónvarpinu og drífum okkur út úr húsi!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.