Rok, rigning og núll stig í Eyjum

Mynd: Mbl/Sigfús Gunnar
Mynd: Mbl/Sigfús Gunnar

Stelpurnar okkar í Tindastóli skelltu sér til Vestmannaeyja í gær til að spila gegn ÍBV í efstu deild kvenna í knattspyrnu. Stólastelpur höfðu í leiknum á undan unnið frækinn sigur á liði Fylkis og með þeim sigri komst liðið upp úr fallsæti. Þær náðu ekki alveg að fylgja sigrinum frá seinasta leik eftir og töpuðu 2-1 gegn sterku liði ÍBV á erfiðum útivelli.

Króksarar komust þó yfir á 22. mínútu leiksins eftir hornspyrnu frá Laufey Hörpu þar sem boltinn datt af einhverjum leikmanni og inn í net ÍBV-stúlkna. Vallarþulurinn sagði að Aldís María Jóhannsdóttir hefði skorað markið en samkvæmt dómaraskýrslunni mun Antoinette Jewel Williams hafa skorað það og þar með sjálfsmark. Það skiptir þó ekki öllu hver skoraði markið, staðan var 0-1 fyrir Tindastóli.

Það var síðan á 30. mínútu að Liana Hinds átti góðan kross inn í teig Tindastóls þar sem að Þóra Björg Stefánsdóttir stakk sér fram fyrir varnarmenn Stólanna og setti boltann í netið. Á 10 mínútna kafla í lok seinni hálfleiks fengu þrír leikmenn hjá Tindastóli að líta gula spjaldið en það er ekki algengt. Þetta voru þær Laufey Harpa, Dominiqe Bond-Flasza og Aldís María. Undirrituðum fannst öll spjöldin þó vera fyrir litlar sakir.

Á 59. Mínútu kom síðan hár bolti inn í teig Tindastólsstúlkna og einhvernveginn endaði hann í fótunum á Olgu Sevcova sem skoraði, 2-1 fyrir ÍBV og fleiri urðu mörkin ekki.

Aðstæður í Vestmanneyjum voru frekar Eyjalegar, rigning og rok, og því má segja að Eyjastelpur hafi haft smá forskot á Króksara.

Tindastóll situr áfram í áttunda sæti deildarinnar, sæti fyrir ofan fallsætið en liðin fyrir neðan, Keflavík og Fylkir eiga leik til góða á Tindastól. Botnbaráttan heldur því áfram að vera spennandi í Pepsi Max deild kvenna og næsti leikur Stólanna er gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Breiðabliks á Sauðárkróki næstkomandi föstudag.

/SMH

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir