Rjúpnaveiðimenn hvattir til hófsemi í veiðum

Hjá mörgum er rjúpan órjúfanlegur partur af jólahaldinu. MYND: STEBBI LÍSU
Hjá mörgum er rjúpan órjúfanlegur partur af jólahaldinu. MYND: STEBBI LÍSU

Húnahornið minnir á að senn hefst veiðitímabil rjúpu en það stendur frá 1. - 30. nóvember í ár. Fyrirkomulag veiðanna nú er það sama og í fyrra, sem þá var ákveðið til þriggja ára. Heimilt er að veiða fimm daga í viku, frá föstudegi til þriðjudags, en veiðibann er á miðvikudögum og fimmtudögum. Ítrekað er að sölubann á rjúpum er áfram í gildi og eru veiðimenn hvattir til hófsemi í veiðum.

Samkvæmt mati Náttúrufræðistofnunar Íslands er veiðistofn rjúpu nú einn sá minnsti síðan mælingar hófust árið 1995 og aðeins einu sinni áður, 2002, hefur veiðistofninn verið metinn viðlíka lítill. Því er mjög mikilvægt að veiðimenn gæti hófsemi í veiðum. Veiðiþol stofnsins er metið um 25.000 rjúpur, sem er um 35% af metnu veiðiþoli í fyrra.

Veiðimenn eru eindregið hvattir til að sýna hófsemi og eru sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða m.a. með því að ljúka veiðum áður en rökkvar. Umhverfisstofnun hvetur til hófsemi í veiðum sem eiga að miða við veiði til eigin neyslu. Sölubann er á rjúpum en í því felst að óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir.

Veiðimenn er sömuleiðis hvattir til að ferðast ekki milli landshluta til veiða á meðan hertar sóttvarnaraðgerðir eru í gangi.

Heimild: Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir