Ríkisstjórnin fundaði með fulltrúum Norðurlands vestra í Gránu í gær
Sveitarfélögin Húnabyggð, Húnaþing vestra, Skagafjörður og Skagaströnd auk Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) ræddu við ríkisstjórnina um stöðu og þróun samfélagsins á Norðurlandi vestra á fundi í gær sem haldinn var í Gránu á Sauðárkróki. Aðspurður sagði Einar Eðvald Einarsson frá Skörðugili að samtalið hafi verið jákvætt. „Eg er sannfærður um að þau fara héðan fróðari um okkar stöðu og okkar sjónarmið en þau voru áður,“ sagði Einar en nánar er rætt við hann í fréttinni.
Á vef stjórnarráðsins segir að samgöngumál, fjárfestingartækifæri á Norðurlandi vestra og opinber störf á landsbyggðinni hafi verið í brennidepli, en ríkisstjórnin hefur samþykkt að forgangsraða fjármunum til þess að fjölga óstaðbundnum opinberum störfum á landsbyggðinni sem og efla vinnustaðaklasa. Sömuleiðis voru orkumál og orkuöryggi til umræðu en unnið er að undirbúningi nokkurs fjölda virkjunarkosta.
„Norðvesturland er lifandi svæði í mikilli sókn. Sameiningar sveitarfélaga hafa gengið vel og við viljum halda áfram að vinna með þeim í að sækja fram. Mikil tækifæri felast í bættum raforkuflutningi og aukinni ferðaþjónustu á svæðinu, svo fátt eitt sé nefnt,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra.
Seinni partinn í gær fór síðan fram sumarfundur ríkisstjórnarinnar á sama stað þar sem efnahagsmál voru megin umræðuefnið. Ríkisstjórnin hefur frá árinu 2018 haldið sumarfund utan Reykjavíkur en áður hafa fundir verið í Snæfellsbæ, við Mývatn, á Hellu, í Grindavík, á Ísafirði og á Egilsstöðum.
Stærsti ávinningurinn er hið milliliðalausa samtal
Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Einar Eðvald Einarsson, sem er bæði forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar og formaður stjórnar SSNV (Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra) en hann var að sjálfsögðu á meðal þeirra sem áttu spjall við ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Er þetta í fyrsta skipti sem ríkisstjórn fundar á Sauðárkróki? „Já, eftir því sem ég best veit þá hefur ríkisstjórn Íslands aldrei áður haldið formlegan ríkisstjórnarfund á Sauðárkróki eða í Skagafirði fyrr en þann sem haldinn var núna, en frá árinu 2018 hefur ríkisstjórnin árlega haldið sumarfund sinn á völdum stað á landsbyggðinni og nú var röðin komin að okkur á Norðurlandi vestra.“
Sveitarstjórnarfólk fundaði með ráðherrum; hvað gefur svona hittingur heimafólki? „Stærsti ávinningurinn er hið milliliðalausa samtal sem á sér stað milli ráðherra og sveitarstjórnarmanna um stöðu sveitarfélaga og stöðu landshlutans í heild. Ég tel að samtal sem fer fram með þessum hætti sé góð viðbót við þá vinnu sem í gangi er af okkar hálfu um aðkomu stjórnvalda að ýmsum verkefnum sem við viljum halda á lofti til styrkingar fyrir samfélagið í heild. Má þar nefna ýmislegt eins og samgöngur, orkuflutninga, uppbyggingu Háskólans á Hólum, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, eflingu heilbrigðisþjónustu, tryggari rekstargrundvöll landbúnaðar í landshlutanum og margt fleira.“
Hvað tókst þú út úr fundinum, eru ráðherrar áhugasamir um að efla byggð á Norðurlandi vestra? „Fundurinn var góður og mér fannst okkur takast vel að koma á framfæri okkar sjónarmiðum en einnig áhyggjum af ýmsu sem okkur finnst að betur mætti fara í atvinnumálum, samgöngum, orkuflutningi og öðru sem við teljum að þurfi að bæta svo fólksfjölgun hér og atvinnutækifæri verði sambærileg og í öðrum landshlutum. En um leið og við ræddum verkefnin sem við stöndum frammi fyrir og lausnir á þeim, þá þökkuðum við líka fyrir það sem vel hefur verið gert og ég er ekki í vafa um að þetta samtal í dag er upphaf á enn frekara samtali um lausnir til styrkingar á stöðu landshlutans.“
Var eitthvað óvænt útspil eða jákvæðar fréttir? „Samtalið var jákvætt og ég er sannfærður um að þau fara héðan fróðari um okkar stöðu og okkar sjónarmið en þau voru áður. Það voru engin stór loforð gefin á staðnum en fram kom að lögð verður áhersla á frekari störf án staðsetningar til eflingar á atvinnulífi ásamt ýmsu öðru sem fer í frekari vinnslu til eflingar landshlutans.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.