Ríkisstjórnin ákveður aðgerðir vegna Covid í dag
Loksins þegar lífið virtist vera að færast í eðlilegt horf eftir kófþrungna mánuði og glimrandi gang í bólusetningum dúkkaði Covid-veiran upp á ný. Síðustu daga hefur talsvert verið um smit og eru þau um 150 síðustu tvo daga. Staðan er þannig þegar þessi frétt er skrifuð að 371 er í einangrun, 1043 í sóttkví og 1234 í skimunarsóttkví. Þrír eru á sjúkrahúsi. Sóttvarnarlæknir hefur sent heilbrigðisráðherra minnismiða með tillögum um aðgerðir og fundar ríkisstjórnin á Egilsstöðum í dag kl. 16 þar sem ákveðið verður til hvaða aðgerða verður gripið.
Á Norðurlandi vestra er staðan raunar sæmileg en einn aðili er í einangrun og fimm í sóttkví. Komið hefur fram í fréttum að það séu vonbrigði að bóluefnið skuli ekki verja fólk betur fyrir smiti en engu að síður er góð von um að bólusetningin komi í flestum tilvikum í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum veirunnar.
Framundan er verslunarmannahelgin með tilheyrandi viðburðum og alls konar húllumhæi og efalaust hefur stór hluti landsmanna hugsað sér til hreyfings. Nú virðist sem flestir reikni með því að farið verði í svipaðar aðgerðir vegna Covid og voru um páskana, þar sem reynt var að stöðva framgang veirunnar með einu öflugu átaki. Það gæti þá þýtt að lokað verði á hátíðir á borð við Þjóðhátíð í Eyjum og Unglingalandsmót á Selfossi þar sem þúsundum manna er stefnt saman.
Það bíða því væntanlega margir spenntir eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar í dag.
Það er hins vegar kristaltært að veiran vonda vofir yfir okkur þrátt fyrir bólusetningar og verður sennilega næstu mánuði eða ár. Munum því að vera skynsöm og passa okkur sem fyrr; spritta hendur, virða fjarlægðarmörkin og grafa upp grímurnar. Allur er varinn góður!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.