RÉTTIR hefjast – Verði ykkur að góðu!
RÉTTIR food festival 2021- 10 daga matarhátíð á Norðurlandi vestra, er hafin. Hátíðin var sett á laggirnar sumarið 2019 og þar sýna matvælaframleiðeiðendur og veitingastaðir á svæðinu heimafólki og gestum sínar bestu hliðar í mat og drykk.
Í ár fer hátíðin fram frá 13. til 22. ágúst með fjölda viðburða á öllu svæðinu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála, sem dró fána hátíðarinnar að hún við veitingastaðin Sjávarborg á Hvammstanga s.l. fimmtudagskvöld.
Hátíðin í ár er býsna fjölbreytt þar sem gestgjafar eru ýmist að hampa því, sem þeir eru að fást við dagsdaglega og þá jafnvel með einhverju nýju tvisti eða eru hreinlega að kynna eitthvað nýtt. Kynning á nýlegri ostavinnslu á Brúnastöðum í Fljótum eða námskeið í bruggun á Kombucha heilsudrykk vekja eflaust forvitni margra. En svo eiga „gamlir kunningjar“ eins og Bílakaffihlaðborðið í Stóragerði eða þriggja rétta seðillin „Brot af því besta“ hjá Sjávarborg á Hvammstanga eftir að gleðja marga bragðlaukana.
Það er sérlegt ánægjuefni að tveir glænýir veitingastaðir, Retro mathús á Hofsósi og Harbour restaurant á Skagaströnd, taki þátt og verði með viðburði á hátíðinni.
Uppleggið að hátíðinni er mjög nálægt upprunanum, þrátt fyrir aðstæður, en gestgjafar eru spenntir að fá að sýna og sanna hversu vel Norðurland vestra býr þegar kemur að matvælum úr héraði og hugmyndaríkum veitingamönnum- og konum.
Við ítrekum að allir gestgjafar eru mjög vakandi um að sinna öllum þeim ráðstöfunum, sem aðstæðurnar þessar vikurnar kalla á og við væntum þess að gestir sinni því á sama hátt.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.