RÉTTIR Food Festival hefst á föstudaginn

Nú á föstudaginn næstkomandi, 13. ágúst, hefst matarhátíð á Norðurlandi vestra sem nefnist RÉTTIR Food Festival og mun hún standa yfir í 10 daga með viðburðum á öllu svæðinu og ljúka sunnudaginn 22. ágúst. Á hátíðinni, sem var fyrst sett á laggirnar sumarið 2019, munu matvælaframleiðendur og veitingastaðir á Norðurlandi vestra sýna heimafólki og gestum sínar bestu hliðar í mat og drykk.

Feykir hafði samband við Þórhildi Maríu Jónsdóttur, verkefnisstýru RÉTTIR, og forvitnaðist um hátíðina í ár. Aðspurð að því hvernig hugmyndin um hátíðina hafi kviknað sagði hún að heimsókn hennar á Copenhagen Cooking & Food Festival hafi tendrað hugmyndina af því að prófa eitthvað svipað hér um slóðir.

„Hátíðin í ár er býsna fjölbreytt þar sem gestgjafar eru ýmist að hampa því, sem þeir eru að fást við dagsdaglega og þá jafnvel með einhverju nýju tvisti eða eru hreinlega að kynna eitthvað nýtt. Kynning á nýlegri ostavinnslu á Brúnastöðum í Fljótum eða námskeið í bruggun á Kombucha heilsudrykk hjá Vörusmiðjunni vekja eflaust forvitni margra. En svo eiga „gamlir kunningjar“ eins og Bílakaffihlaðborðið í Stóragerði eða þriggja rétta seðillin „Brot af því besta“ hjá Sjávarborg eftir að gleðja marga bragðlaukana. Það er svo auðvitað frábært að starta inn í hátíðina í ár með tveimur splunkunýjum veitingastöðum, Retro Mathús á Hofsósi og Harbour restaurant á Skagaströnd, sem báðir munu verða með viðburði á hátíðinni“, segir Þórhildur.

Upplegg skipuleggjenda að hátíðinni er mjög nálægt upprunanum og þó að aðstæður bjóði ekki upp á hátíð með fullum afköstum í þetta skiptið, eru gestgjafar spenntir að fá að sýna hvað í þeim býr og sýna og sanna hversu vel við búum á Norðurlandi vestra þegar kemur að matvælum úr héraði og hugmyndaríkum veitingamönnum og -konum.

„Við ítrekum að allir gestgjafar eru mjög vakandi um að sinna öllum þeim ráðstöfunum, sem aðstæðurnar þessar vikurnar kalla á og við væntum þess að gestirnir okkar sinni því á sama hátt,“ segir Þórhildur að lokum.

Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu RÉTTIR Food Festival.

 
/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir