Rekstrartekjur Vilko hækka um 23% milli ára

Vilko á Blönduósi. Mynd:FE
Vilko á Blönduósi. Mynd:FE

Aðalfundur Vilko var haldinn föstudaginn 15. maí síðastliðinn. Í frétt á huni.is segir að fram komi í tilkynningu frá félaginu að rekstrartekjur hafi numið 266 milljónum króna árið 2019 og hafi hækkað um 23% milli ára. Rekstargjöld fyrir fjármagnsliði námu 259 milljónum og jukust um 14% milli ára. Minniháttar tap var á rekstri félagsins eða rúmar tvær milljónir króna. Alls greiddi Vilko 90 milljónir í laun og launatengd gjöld á árinu en að jafnaði starfa þar 12-15 starfsmenn.

Húni hefur eftir Kára Kárasyni, framkvæmdastjóra Vilko, að vinnsla og sala hafi gengið vel það sem af er þessu ári, þrátt fyrir að sala til stóreldhúsa og veitingahúsa hafi nær alveg stöðvast. Mikil söluaukning hefur verið á klassískum Vilko vörum og Prima kryddum undanfarna mánuði.

Í fyrra var hafin bygging á 160 m2 viðbyggingu sem nýtast mun sem móttöku- og afgreislusalur. Nýja viðbyggingin mun breyta allri vinnuaðstöðu, að sögn Kára, þar sem vörur séu meðhöndlaðar og geymdar á brettum en jafnframt verði sett upp vörulyfta til að flytja vörur milli hæða. Þá segir Kári að stöðugt sé unnið að vöruþróun og nýjungum. Nýjasta afurðin sé Amerískar pönnukökur sem þykja hafa heppnast gríðarlega vel.

Stjórn Vilko skipa þau Jóhannes Torfason, formaður, Guðbjörg Óskarsdóttir, Ólafur Johnson, Ágúst Sindri Karlsson og Jón Gíslason.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir