Rausnarleg gjöf frá Björgunarsveitinni Húnar frá Hvammstanga

Björgunarsveitarmenn verða seint kallaðir eiginhagsmunaseggir enda öll sú vinna sem menn og konur leggja í þar til gerð félög sjálfboðaliðastörf og oftar en ekki mikið álag á þeim við að koma náunganum til hjálpar í hvaða veðri og aðstæðum sem er.

Liðsfélagar í Björgunarsveitinni Húnar frá Hvammstanga hafa tekið þetta á annað stig því í eigu félagsins var snjóbíll sem var kominn til ára sinna og ekkert nýttur. Þeir höfðu því samband við Samgönguminjasafnið í Stóragerði Skagafirði og vonuðust þeir eftir að safnið tæki bílinn í sína vörslu, en hann hafði verið í eigu félagsins til margra ára. Safnið þáði þetta auðvitað með miklum þökkum.

Í síðustu viku var snjóbíllinn sóttur og þrátt fyrir að hafa staðið hreyfingarlaus í nokkur ár þá rauk hann í gang eins og enginn væri morgundagurinn og malaði eins og köttur. Gunnar Örn Jakobsson í Björgunarsveitinni Húnar sagði: að nú væri sá gamli kominn á elliheimilið sitt og vonandi ætti honum eftir að líða vel hjá á safninu.

Undirvagn þessarar glæsikerru er af gerðinni M29 Weasel en Ameríski bílaframleiðandinn Studebaker smíðaði þá og hannaði sérstaklega í snjóakstur. Þeir sáust fyrst notaðir af Bandaríska hernum í Noregi árið 1942. En eins og með marga aðra bíla og vélar frá þessum tíma þá voru þær yfirleitt alltaf fluttar inn til landsins án yfirbyggingarinnar. Hvað varðar þetta tæki þá var engin undantekning á því og var hún því smíðuð hér á landi. 

Samgönguminjasafnið vill koma á framfæri að það er ómetanlegt þegar fólk hefur samband og er með hluti, hvort sem það eru bílar, varahlutir eða hvers konar annað dót tengt samgöngusögunni, og er tilbúið að gefa til varðveislu. Orðatiltækið, eins manns rusli er annars fjársjóður á því vel við þegar gjafir af þessu tagi koma á safnið. Safnið vill þakka Björgunarsveitinni Húnar á Hvammstanga kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir