Prjón og hekl er í uppáhaldi
Þórdís Erla Björnsdóttir býr á Blönduósi með eiginmanni og þremur sonum. Handavinna er hennar aðal áhugamál og notar hún hverja mínútu sem hún á aflögu til að dunda sér, helst í prjóni eða hekli. Eins skoðar hún mikið af handavinnu á Instagram eða Facebook, Þórdís segir að það sé auðveldlega hægt að gleyma sér yfir slíku tímunum saman og einnig sé rosalega gaman að skoða fallegt handlitað íslenskt garn.
Hvaða handavinna þykir þér skemmti-legust? „Prjón og hekl er í uppáhaldi, eins finnst mér gaman að sauma út.“
Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? „Ég hef verið sirka 6-8 ára þegar ég byrjaði að sauma krosssaum og upp úr því fer ég að prjóna. Ömmur mínar báðar voru miklar hannyrðakonur og lærði ég mikið af þeim. Það voru mínar bestu gæðastundir sem barn og unglingur að fara að heimsækja ömmu og eiga notalega stund. Einnig kenndi mamma mér líka margt í sambandi við prjón.“
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? „Ég er að prjóna tvö sjöl og tvær peysur.“
Hvar fékkstu hugmyndina? „Hugmyndir að handverkinu fæ ég mest á Facebook og Instagram.“
Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? „Ætli ég sé ekki stoltust af skírnarkjólunum sem ég hef gert, annar er heklaður og hinn er prjónaður. Heklaði skírnarkjóllinn er fyrsta heklaða flíkin sem ég gerði.
Ég heklaði teppi árið 2017 sem ber nafnið Veðráttuteppi og sá ég hugmyndina á Facebook.
Þá heklaði ég eina rönd á dag eftir hitastigi á Blönduósi um hádegi. Ég bjó mér til minn hitaskala.“ Sjá má mynd af teppinu hér að neðan, hvítu rendurnar eru skil milli mánaða.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.