Planleggja líf og fjör á Króknum

Líf og fjör á Lummudögum 2013. Kaffi Krókur í bakgrunni. MYND: ÓAB
Líf og fjör á Lummudögum 2013. Kaffi Krókur í bakgrunni. MYND: ÓAB

Í lok ágúst sagði Feykir frá sviptingum í veitingabransanum á Sauðárkróki. Þar kom m.a. fram að viðræður stæðu yfir um kaup fyrri eigenda Kaffi Króks, hjónanna Kristínar Elfu Magnúsdóttur og Sigurpáls Aðalsteinssonar (Sigga Dodda), á KK Restaurant við Aðalgötuna á Króknum. Nú eru kaupin staðfest og stefna Siggi Doddi og Kristín að því að opna um miðjan október og auglýsa nú eftir starfsfólki. „Það verður erfitt að opna ef við fáum ekki fólk í lið með okkur,“ sagði Siggi Doddi þegar Feykir spurði hvenær stæði til að opna.

„Planið er að þarna verði líf og fjör og eitthvað í boði fyrir alla, næg afþreying, hægt að horfa á sportið og fá sér gott að borða, svo er bar á kvöldin og skemmtileg stemning,“ segir Siggi Doddi í samtali við vefmiðilinn Kaffið.is. Þar segir hann að þau ætli að gera sitt besta í því að Króksarar og gestir verði velkomnir og lífið á Króknum njóti sín eins og það gerist best. „Á maður ekki að vera bjartsýnn, það verður allavega líf og fjör hjá okkur og við vonum að það teygi sig lengra.“

„Nú vantar okkur hinsvegar starfsfólk. Ef fólk hefur áhuga á að vinna með okkur þá væri það frábært, við þurfum rekstrarstjóra og starfsfólk á bar, í eldhús, afgreiðslu og dyravörslu. Það er nóg í boði svo við leitum eftir fólki,“ segir Siggi Doddi. Hægt er að senda inn starfsumsókn á netfangið unnursigurpals@gmail.com eða í hringja í síma 895-2515 og 782-7676.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir