Pínu rosalega flott frammistaða Stólanna á parketinu og á pöllunum
Tindastóll fékk Keflavík í heimsókn í kvöld í 20. umferð Subway-deildarinnar í körfubolta og reyndist leikurinn hin besta skemmtun – í það minnsta fyrir heimamenn. Stólarnir voru yfir allan leikinn og með Arnar í banastuði en kappinn skellti í tíu þrista og réðu gestirnir ekkert við hann. Gamla góða stemningin var í Síkinu, taumlaust fjör, sungið og klappað og allir í stuði. Lokatölur reyndust 101-76.
Það munaði að sjálfsögðu um að það vantaði Jaka Brodnik og Hörð Axel í lið Keflavíkur en lið gestanna engu að síður sterkt. Stólarnir byrjuðu leikinn vel, komust í 6-0 og 11-3 eftir fimm mínútna leik en Keflvíkingar minnkuðu muninn í þrjú stig. Körfur frá Zoran, Taiwo og Viðari kom Stólunum aftur tíu stigum yfir, 21-11. Aftur svöruðu gestirnir og staðan var 23-20 að loknum fyrsta leikhluta. Körfur frá Arnari og Sigga komu Stólunum átta stigum yfir í upphafi annars leikhluta. Keflvíkingar fengu slatta af vítaskotum en þeir rétt slefuðu í rúmlega 50% nýtingu af vítalínunni þannig að það gekk brösuglega hjá þeim að kroppa í forystu Stólanna. Um miðjan annan leikhluta var munurinn tólf stig, 39-27, en í hálfleik var staðan 46-36.
Gestirnir hófu síðari hálfeik af krafti og gerðu fyrstu sjö stigin og munurinn aðeins þrjú stig. Körfur frá Arnari og Bess komu Stólunum aftur í bílstjórasætið og munurinn yfirleitt þetta átta til ellefu stig næstu mínúturnar – eða þangað til Arnar kveikti í kofanum. Þrír þristar á skömmum tíma gáfu heimamönnum gott andrými og Keflvíkingar virtust gjörsamlega tapa áttum í Síkinu. Staðan 68-52 að loknum þriðja leikhluta og snemma í fjórða leikhluta var munurinn kominn yfir tuttugu stigin en stuttu síðar datt flæðið úr leik heimamanna og gestirnir náðu að minnka muninn í tólf stig, 84-72, þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka. Nokkrir þristar til viðbótar frá Arnari gerðu endanlega út um leikinn og glassúrinn á Bakaríssnúðinn voru síðan körfur frá Orra Svavars og Hannesi Inga á lokamínútunni. 25 stiga sigur staðreynd.
Fimmti sigurleikurinn í röð hjá Stólunum
Arnar var klárlega maður leiksins og endaði með 35 stig, átta fráköst, sjö stoðsendingar og í það minnsta þrjá stolna bolta. Hann var bara í banastuði og spilaði með bros á vör allan leikinn eins og hans er von og vísa. Bess átti líka ágætan leik og skilaði 21 stigi, Zoran endaði með 15 stig og Taiwo tólf, Siggi gerði sjö stig og tók sjö fráköst og þó Pétur hafi aðeins skorað tvö stig í kvöld þá stjórnaði hann leik liðsins vel, skilaði tíu stoðsendingum og lið Tindastóls tikkar eins og vel stillt klukka þegar hann er inn á. Í liði Keflavíkur var Mustapha Heron atkvæðamestur með 21 stig en Milka skilaði 17 stigum á töfluna.
Stólarnir settu niður 17 af 37 3ja stiga skotum sínum í leiknum en Keflvíkingar níu af 17. Liðin fráköstuðu álíka mikið (36/39) en Stólarnir áttu mun fleiri stoðsendingar (26/15). Lið Tindastóls er sem stendur í fimmta sæti deildarinnar með 24 stig líkt og Valsmenn en Stjarnan er með 22 stig en á leik inni gegn liði Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni annað kvöld. Stólarnir eiga eftir tvo leiki og báða gegn Þórsurum; fyrst í Þorlákshöfn nk. mánudagskvöld og í lokaumferðinni eftir viku koma grannar okkar frá Akureyri í heimsókn.
Já, nú er fjör!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.