Pétur Rúnar íþróttamaður ársins
Í kvöld fór fram val á íþróttamanni Skagafjarðar í Húsi frítímans á Sauðárkróki að viðstöddu fjölmenni. Fjöldi ungra íþróttakappa fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í sínum greinum og besti þjálfarinn verðlaunaður sem og besta liðið. Besta liðið að mati valnefndar að þessu sinni var lið meistaraflokks karla í knattspyrnu en það þótti afreka vel í sumar er það færði sig upp um deild og ekki síst fyrir það að liðið sigraði andstæðinga sína 17 leiki í röð á Íslandsmótinu.
Besti þjálfarinn var valinn hinn geðþekki, Israel Martin, sem hefur stýrt Tindastólsliði karla i körfunni frá því í haust er hann tók við af landa sínum Jose Maria Costa, en liðið hefur verið einkar sigursælt undir hans stjórn.
En íþróttamaður Skagafjarðar fyrir árið 2016 er enginn annar en sá ungi og magnaði körfuboltamaður Pétur Rúnar Birgisson. Hann hefur verið lykilmaður í liði Tindastóls, leikið stórt hlutverk með U20 ára landsliðinu á árinu þar sem liðið vann sig upp í að leika sem A þjóð og einnig hefur hann verið valinn í úrvalslið Dominos deildarinnar.
Þar sem stórleikur er framundan hjá Tindastóli í körfuboltanum gegn KR var enginn miskunn hjá þjálfara sem var með æfingu á sama tíma og verðlaunaafhending fór fram voru þeir ekki staddir í húsinu, hvorki Pétur né Martin. Tók formaður deildarinnar, Stefán Jónsson, við viðurkenningunum og færði þeim bikarana og verðlaunaskildi á æfinguna eftir að athöfn lauk í Húsi frítímans.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.