Páll og Gísli krefjast svara
Páll Dagbjartsson XD og Gísli Árnason XV eru ósáttir með að ekki varð í boðaðri fundardagskrá fyrir byggðaráðsfund í dag fimmtudaginn 20. maí gert ráð fyrir skriflegum svörum þeirra við spurningum sem þeir lögðu fyrir fundinn.
Spurningar þeirra eru eftirfarandi:
- Hver er ástæða þess að ekki var fylgt eftir samþykkt sveitarstjórnar og ráðist í lagfæringar á bílastæðum við Upplýsingamiðstöð ferðamála í Varmahlíð á árinu 2008?
- Hver ber ábyrgð á því að ekki var farið í umræddar lagfæringar.
- Hvað varð um þá fjárveitingu sem ætluð var þessu verkefni?
- Eru einhver áform um framkvæmdir við bílastæðið á þessu ári?
- Á hvers vegum er þvottaplanið við upplýsingamiðstöðina og er planið á eigin lóð eða inni á lóð upplýsingamiðstöðvarinnar?
Í greinargerð frá þeim félögum sem fylgdi spurningalistanum segir; -Þegar fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 var til umfjöllunar í byggðarráði í desember 2007, varð að samkomulagi milli meiri- og minnihluta að verja skyldi fjármagni til lagfæringa á bílastæði (plani) fyrir framan Upplýsingamiðstöð ferðamála í Varmahlíð. Upphæðin var ákveðin með aðkomu sviðsstjóra tæknisviðs, sem sat umræddan fund. Niðurstaða þessa byggðaráðsfundar var síðan samþykkt í sveitarstjórn með fjárhagsáætlun fyrir árið 2008.
Ekkert var aðhafst í lagfæringum á umræddu plani á árinu 2008, né á árinu 2009.
Enn eru sömu djúpu pollarnir til staðar. Enn er gatan sem liggur að verslun KS við hlið þessa bílastæðis það mjó að bílar geta ekki mætst þar. Enn eru grasflatir við umrætt hús upplýsingamiðstöðvarinnar óvarðar fyrir umferð bíla og bera þess merki ( djúp hjólför). Þetta teljum við óviðunandi ástand og svo hefur lengi verið. Þessi staður sem um ræðir, gatan og bílastæðið, er sennilega fjölfarnasti staður í sveitarfélaginu. Tugir þúsunda vegfaranda eiga þarna leið um á hverju ári. Umgjörð svæðisins skiptir verulegu máli fyrir ímynd Skagafjarðar. Þvottaplan (gamla Skeljungsplanið ) er eins og illa gerður hlutur fast ofan í upplýsingamiðstöðinni, sem þarf þó ekki endilega að skjóta skökku við, ef snyrtilegt er og vel um hugsað og þrifalegt.
Ástand hússins er kapítuli út af fyrir sig, en samkvæmt upplýsingum sem við höfum fengið er unnið að úrbótum þar, sem vonandi verður hrint í framkvæmt nú þegar.
Gísli Árnason Páll Dagbjartsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.