Óvelkomnar og óþrifalegar
Landeigendur á Gránumóum eru orðnir langþreyttir á ágangi sauðfjár í kringum byggingar sínar í þéttbýli Sauðárkróks. Margir muna örugglega eftir því þegar sumarblómin á Kirkjutorginu á Sauðárkróki urðu veisluborð sauðkinda, eina síðsumarnótt í fyrra. Enn einu sinni eru þær mættar í bæinn.
Ennþá virðist ekki hægt að koma í veg fyrir að sauðfé gangi óhindrað inn í þéttbýli Sauðárkróks, þrátt fyrir að milljónum hafi verið eytt í girðingavinnu síðustu ár til að reyna að koma í veg fyrir það. Bærinn er ekki orðinn fjárheldur að norðan. Það hefur verið lagt til að loka bæjarlandinu með ristarhliði á Þverárfjallsvegi við Reykjastrandarafleggjarann en það mál er inná borði sveitarstjóra og Vegagerðar. Ekki náðist í Sigfús Inga Sigfússon sveitarstjóra Skagafjarðar við vinnslu á þessari frétt til að vita hvar það mál er statt. Einnig hefur líka orðið ljóst eftir að Gönguskarðsáin var virkjuð er hún ekki lengur náttúruleg hindrun fyrir kindur að fara um, segir Kári Gunnarsson umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi Skagafjarðar.
Landeigendur á Gránumóum eru vægast sagt orðnir þreyttir á ágangi sauðfjár í kringum þeirra byggingar og velta fyrir sér hverjir séu ábyrgir þegar lausaganga búfjár er bönnuð í þéttbýli og samt sem áður gera þær sig heimankomnar í kringum húsin, valda þar tjóni og þeim fylgir mikill óþrifnaður.
Kindurnar geta verið vandamál bæði á vorin áður en þær eru reknar í afrétt og einnig á haustin þegar þær fara að leita heim úr sumarhaganum. Þær virðast vita hvert þær eiga ekki að fara og hvar þær eiga ekki að vera og það merkilega er, þar halda þær gjarnan til. Á þessu getur reynst erfitt að hafa stjórn og deginum ljósara að þær eru ekki velkomnar þar sem þær eiga ekki heima.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.