Otur frá Sauðárkróki fallinn
Stóðhesturinn Otur frá Sauðárkróki hefur nú kvatt þetta jarðlíf 36 vetra gamall. Seinni hluta ævinnar dvaldi hann í Þýskalandi við gott atlæti en þangað fór hann árið 2000. Otur var úr ræktun Sveins Guðmundssonar, undan Hrafnkötlu og Hervari frá Sauðárkróki og samkvæmt WorldFeng er Otur GbR skráður eigandi.
Otur var sýndur á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum árið 1990 og hlaut þá í aðaleinkunn 8.37, 8.05 fyrir sköpulag og 8.69 fyrir hæfileika. Fjöldi skráðra afkvæma eru alls 1023 en á Landsmóti á Gaddstaðaflötum 1994 hlaut hann 1. verðlaun fyrir afkvæmi. Í dómsorði segir að afkvæmi Oturs hafi myndarlegt og svipmikið höfuð en eyru oft illa sett. Hálsinn er reistur, þykkur, herðar háar og bógar skásettir. Bakið er beint, lendin frekar stutt og áslaga. Afkvæmin eru stuttvaxin og bolmikil en lofthá. Fætur eru grannir, oft votir, kjúkur beinar og langar. Hófar eru framúrskarandi vel gerðir. Sum afkvæmanna hafa úrvalstölt, brokkið er mistækt en vekurðin rúm sé hún fyrir hendi. Þau eru kraftmikil á stökki, fjörhörð og fasmikil.
Hrafnkatla og sá snjalli tamningamaður Sigurjón Gestsson í úrhellisrigningu á Vindheimamelum. Mynd af FB.
Guðmundur Sveinsson, þekkti hestinn vel eins og ætla má, minntist hans á skemmtilegan hátt á Facebook-síðu sinni, fannst hann skulda þessum vini sínum nokkur kveðjuorð.
Guðmundur gaf Feyki góðfúslegt leyfi til að birta þau skrif hér.
„Hann var strax áberandi sem folald, hreyfingamikill með djarfa framgöngu. Var honum komið fyrir á Stóðhestastöðinni í Gunnarsholti og taminn þar. Ekki var hann óheppinn með tamningamenn en fyrra árið á 4v. er hann í höndunum á Einari Öder Magnússyni. Á 5v. er að Eiríkur Guðmundsson sem heldur um taumana. Þessir tveir snillingar skildu þennan unga, geðríka og fjörmikla hest vel og sýndu honum virðingu og gáfu honum tíma. Hesturinn bjó að þessu alla tíð.
Ég var svo heppinn að fá hestinn í þjálfun á 6v. Þjálfaði hann undir leiðsögn frá Eiríki og gekk vel. Þegar leið á veturinn var hesturinn orðin ævintýralega skemmtilegur, einn albesti og eftirminnilegasti hestur sem ég hef haft undir höndum. Eftirminnilegastur er viljinn, þetta ólgandi fjör án alls ofríkis.
Töltgæðin afbragðs góð með flugavekurð og brokkið orðið mjög gott með aukinni þjálfun. Afburða greindur. Um leið og sest var í hnakkinn lækkaði lendin, risið upp í herðum ekki tekið í taum og spurt: hvert skal halda?
Óneitanlega minnti hann mikið á móður sína Hrafnkötlu þann mikla gæðing. Sem kynbótahestur reyndist hann misjafnlega. Gaf bæði „gull og grjót“. Þeim einstaka árangri náði hann að þrír synir hans unnu B-flokk á Landsmóti og tveir sonarsynir, ótrúlegt.
Otur mun þó lifa lengi sem kynbótahestur í gegnum son sinn Orra frá Þúfu. Í Þýskalandi er sonur hans, gæðingurinn Teigur frá Kronshof farinn að gefa athyglisverð afkvæmi. Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast þessum höfðingja. Takk fyrir allt Otur.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.