Ótrúlega erfið ákvörðun að þurfa að loka
„Béskotans Covid veiran komst í bakaríið,“ segir Róbert Óttarsson í Sauðárkróksbakaríi þegar Feykir hafði samband við hann í tilefni af því að sjá mátti á samfélagsmiðlum seint í gærkvöldi að bakaríinu á Króknum hefði verið lokað í óákveðinn tíma vegna Covid. „Og í framhaldinu er þetta gert til að verja starfsfólkið okkar því ekki viljum við að þetta nái um allt fyrirtækið, flestir eru sem betur fer bólusettir,“ segir bakarameistarinn.
Það fjölgar enn þeim sem krækt hafa í Covid en nú eru yfir tíu þúsund landsmenn í einangrun og að sjálfsögðu finna fyrirtæki og stofnanir fyrir því og sum hver hafa þurft að loka vegna útbreiðslu veirunnar þrjósku.
Hvað eiga Skagfirðingar að gera þegar bakaríið er lokað? „Það er spurning sem ég á ekki alveg nógu gott svar við,“ segir Róbert en hann vonast til að geta opnað á ný um miðja næstu viku. „Þessi ótrúlega erfiða ákvörðun ætti því ekki að hafa áhrif á bolludaginn,“ segir hann þegar blaðamaður spyr hvort sá ágæti dagur sé í hættu.
Feykir sagði frá því í nóvember að Karsten Rummelhoff, bakari hjá Sauðárkróksbakaríi, hefði komist í úrslit í keppninni um köku ársins 2022. Hvernig endaði sú keppni og verður kaka Karstens í boði í bakaríinu? „Kakan fékk flott dóma en endaði í 3. sæti sem voru pínu vonbrigði fyrir okkur. Við vorum mjög ánægð með kökuna. Auðvitað erum við svolítið hlutdræg en persónulega fannst mér kaka Karstens besta kakan.“
Róbert segir að kakan sé komin í sölu hjá Sauðárkróksbakaríi og var það strax og keppninni lauk. „Við gáfum henni nafnið Bronzkakan. Kakan verður Bóndadagskakan okkar í ár og einnig ætlum við að hafa hana til á konudaginn þegar Kaka ársins kemur. Því við höfum trú á því að margir vilji jafnvel frekar fá Bronzkökuna því hún er bara það góð,“ segir Róbert að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.