Öskudagsfjörið fært heim að dyrum veikra barna
Hver dásemdardagurinn rekur annan þessa vikuna þar sem bolludagur var í gær, sprengidagur í dag og svo öskudagur á morgun með öllum þeim söng og nammi sem honum fylgir. En því miður eru einhverjir krakkar sem ekki komast í bæinn sökum veikinda þar sem Cóvidið herjar á mörgum heimilum en gætu samt fengið sinn skerf af gotteríi.
Soffía Helga Valsdóttir á Sauðárkróki vakti athygli á því á Facebookhópnum Foreldrar í Skagafirði að einhverjir myndu missa af öllu fjörinu en henni og Maríu Dröfn Guðnadóttur, vinkonu hennar, datt í hug að taka saman lista yfir þá sem komast ekki út úr húsi, safna saman öskudagsgjöfum hjá fyrirtækjunum og koma þeim til þeirra sem eru fastir heima. „Þá geta þau allavega dressað sig upp, sungið einu sinni og fengið glaðning fyrir.“
Úr varð hópur á Facebook, Heima Öskudagur á Sauðárkróki, þar sem fólk getur skráð börnin sem ekki komast í fyrirtækjaheimsóknir og fá þau þá heimsókn á morgun og fengið öskudagsglaðning í staðinn fyrir söng. Þau fyrirtæki sem vilja taka þátt í þessu verðuga verkefni eru beðin um að láta vita á síðunni og þá mun einhver líta við og koma gotteríinu á réttan stað.
Þetta framtak fær afar góðar móttökur á síðu foreldra í Skagafirði og ljóst að það mun gleðja marga krakka sem nú eru heima í einangrun.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.