Öryrkjar fá jólabónus
Þingflokkar Samfylkingarinnar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar fagna því að samstaða hafi náðst í fjárlaganefnd um tillögu stjórnarandstöðunnar að greiða öryrkjum 53.000 kr. aukagreiðslu skattfrjálst og skerðingarlaust.
Í tilkynningu frá þingflokki Samfylkingarinnar segir að stjórnarandstaðan hafi undanfarið barist fyrir því að ríkisstjórnin greiði öryrkjum eingreiðslu líkt og gert var fyrir síðustu jól. „Í síðustu viku lögðu fulltrúar flokkanna í fjárlaganefnd fram breytingartillögu við fjáraukalög þess efnis. Það eru því gleðitíðindi að stjórnarmeirihlutinn hafi loks fallist á tillögu stjórnarandstöðunnar og að fjárlaganefnd standi að baki slíkri tillögu,“ segir í tilkynningunni.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra segir á Facebook-síðu sinni að framundan sé að breyta örorkulífeyriskerfinu, einfalda það og styrkja kjör örorkulífeyrisþega, sérstaklega þeirra sem höllustum fæti standa. „Bæta þarf framfærslu þeirra sem ekki geta unnið og auka möguleika þeirra sem það geta með sveigjanlegum störfum og hlutastörfum. Þannig búum við til betra samfélag - ég hlakka til að takast á við og leiða það verkefni,“ segir hann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.