Öruggur sigur Stólastúlkna á b-liði Blika
Stólastúlkur tóku á móti b-liði Breiðabliks í 1. deild kvenna í Síkinu í dag. Liðin eru langneðst í deildinni en Blikar hafa ekki unnið leik en lið Tindastóls hafði aðeins unnið tvo leiki og báða gegn stúlkunum úr Kópavogi. Það varð engin breyting á í dag því heimastúlkur unnu öruggan sigur líkt og í fyrri leikjum. Lokatölur 93-41.
Að þessu sinni komust allar nema ein Stólastúlka á blað í stigaskorinu og fengu sömuleiðis ágætan tíma inni á vellinum til að leika listir sínar. Inga Sólveig gerði níu fyrstu stig leiksins en eftir sjö og hálfa mínútu var staðan orðin 23-0. Þá loks kom karfa frá gestunum en staðan að loknum fyrsta leikhluta var 32-5 og leikurinn í raun búinn. Áfram hélt heimaliðið í öðrum leikhluta, gerði 14 fyrstu stigin og liðnar rúmar fimm mínútur áður en Blikar komust á blað. Staðan í hálfleik 57-12.
Leikur Stólastúlkna datt niður í síðari hálfleik en líkt og í fyrri hálfleik þá tók það gestina ansi langan tíma að finna körfuna. Nú liðu sex mínútur og staðan 67-15 þegar þristur frá Maríu Vigdísi fór niður. Munurinn þarna 52 stig og það var munurinn á liðunum þegar upp var staðið. Tindastólsliðinu gekk illa í upphafi fjórða leikhluta og þá náðu gestirnir að minnka muninn í 40 stig á meðan að helstu kanónur heimaliðsins hvíldu. Á þessum tíma fóru skot Blikastúlkna að rata rétta leið en þessi tilraun til endurkomu fjaraði út þegar kanónurnar komu til leiks á ný.
Stigahæst í liði Tindastóls var Jayla Johnson með 32 stig og hún tók níu fráköst. Eva Rún var með 15 stig, sjö fráköst og níu stoðsendingar og Inga Sólveig ellefu stig og sjö fráköst. Stólastúlkur höfðu yfirburði á öllum sviðum leiksins í dag. Aðeins sex stúlkur mættu til leiks fyrir Blika í dag en þær spiluðu einnig á Akureyri í gær – það má taka ofan fyrir þeim.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.