Öruggur sigur Kormáks Hvatar
Lið Kormáks Hvatar tók á móti Vængjum Júpíters á Sauðárkróksvelli í dag í D-riðli 4. deildar. Leikurinn var bráðfjörugur og útlit fyrir að Húnvetningar séu til alls líklegir í sumar. Þeir voru 3-1 yfir í hálfleik, komust síðan í 4-1 en gestirnir löguðu stöðuna örlítið undir lokin og úrslitin því 4-2.
Hilmar Þór Kárason hóf veisluna með marki á 2. mínútu en Alexander Tómasson jafnaði leikinn á 14. mínútu. Hilmar kom sínum mönnum aftur yfir á markamínútunni, þeirri fertugustu og þriðju, eftir hornspyrnu og Akil De Freitas bætti um betur í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar hann brunaði inn á teig Vængjanna og kláraði færið snyrtilega.
Húnvetningar sýndu fína takta í upphafi síðari hálfleiks og það kom lítið á óvart þegar George Chariton bætti við marki á 58. mínútu, fékk boltann í teignum og kom sér í góða stöðu og lagði síðan boltann óverjandi út við stöng. Lið Kormáks Hvatar var mun sterkari aðilinn þar til um stundarfjórðungur var eftir en þá var eins og drægi af mönnum. Júlíus Júlíusson minnkaði muninn í 4-2 nokkuð ódýrt. Gestirnir fylltust eldmóð í kjölfarið og voru nálægt því að klóra enn frekar í bakkann en þeir komust ekki nær og fyrsti sigur Kormáks Hvatar í höfn.
Húnvetningar sýndu á köflum fína takta og ágætt spil og hefðu getað unnið stærri sigur ef þeir hefðu nýtt álitlega möguleika betur. Það verður spennandi að fylgjast með þeim í sumar en þeir eru enn að slípa mannskapinn saman.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.