Opið bréf til körfuknattleiksdeildar Tindastóls

Sonur minn Sigtryggur Arnar ákvað síðastliðið sumar að fara á Sauðárkrók til að spila körfubolta. Hann fer frá Kanada á sínum vegum og hefur ekki þegið krónu frá Tindastól né aðra aðstoð en þá að honum var útveguð vinna í Loðskinn. Það gerist síðan 3. febrúar síðastliðinn að einn meðstjórnanda körfuknattleiksdeildar býður Arnari með sér á rúntinn þar sem hann segir að ákveðið hafi verið að reka Arnar úr liðinu vegna ferðar hans til Reykjavíkur daginn áður. Arnar hafði farið ásamt erlendum leikmanni liðsins á bíl sem erlendir leikmenn höfðu til umráða.

Hann hafði enga ástæðu til að ætla annað en að þessi leikmaður hefði full yfirráð yfir bílnum og gæti farið á honum hvert sem hann vildi. Svo var ekki og hringdi formaður deildarinnar í Arnar um kvöldið og sagði að yrðu þeir ekki komnir til baka fyrir 2:00 um nóttina væri honum að mæta. Þeir ákváðu að í stað þess að keyra yfir nótt að bíða til morguns og voru þeir komnir á Krókinn um hádegi daginn eftir. Þetta taldi formaðurinn næga ástæða til að reka þá og hafði til þess stuðning tveggja  stjórnarmanna en tekið var sérstaklega fram að þjálfari hafi ekkert komið nærri.

Þarna er 19 ára strák, kominn alla leið frá Kanada á eigin kostnað til að spila fyrir Tindastól eftir þrábeiðni þjálfara, tilkynnt að hann sé rekinn úr liðinu og honum aldrei gefinn kostur á því að verja sig. Daginn eftir heyrir afi hans af þessu og hringir í formanninn þar sem ofangreind frásögn  er staðfest.

Undirritaður sendir þá tölvupóst á stjórnina og krefst skýringa og fær loks tölvupóst frá þjálfaranum þar sem hann segist vera laus um kvöldið. En nú var annað hljóð í strokknum, það ekki lengur Reykjavíkurferðin sem var málið heldur allt það sem gengið hafði á um veturinn; „Menn nefnilega rjúka ekki til í svona málum og taki svona ákvarðanir nema eitthvað annað hafi gengið á á undan“.

Á símafundi um kvöldið var farið yfir það sem gengið hafði á:

1.         Arnar hafði farið suður til Reykjavíkur helgina 12.-13. janúar en þá helgi spilaði Tindastóll við Stjörnuna í Garðabæ á sunnudegi. Þjálfarinn, sem sjálfur var í burtu alla helgina, boðaði þrjá leikmenn á æfingu á föstudagskvöldi og síðan áttu menn að mæta eitthvað á laugardegi. Arnar taldi að hann gæti sleppt þessum æfingum og það var enginn feluleikur með það. Arnar bað síðan  liðsfélaga sína afsökunar á framkomu sinni fyrir leikinn.

2.         Í jólafríinu fer Arnar í 3ja daga ferð til London. Ferð sem hafði verið löngu ákveðin og margir vissu af en það fórst fyrir að tilkynna þjálfara hana fyrr en daginn fyrir brottför. Hann var ekki sá eini sem var í burtu þar sem erlendur atvinnuleikmaður félagsins var í fríi í heimalandi sínu.

3.         Þá gat þjálfari stunið upp að Arnar hefði líklega mætt seint á 2 eða 3 æfingar og svo hefði hann í einhverjum tilvikum ekki verið með hugann við það sem var í gangi á æfingum! Arnar vinnur 8 tíma á dag og lagði sig stundum fyrir æfingar og í eitt eða tvö skipti svaf hann of lengi og var seinn á æfingu, hitt er ekki svaravert.

Þetta var nú allt sem gengið hafði á.

Fyrir þennan símafund hitti Arnar Bárð þjálfara sem segist hafa á stjórnarfundi lagt fram tillögu sem hefði verið samþykkt um lausn á málinu. Fram að þessu hafði hann ekki talað við Arnar nema hvað hann hafði rekist á hann kvöldið áður og sagt þá að hann hafi ekkert vitað af brottrekstrinum fyrr en eftirá. Hljómar það trúlega að þjálfari viti ekkert um brottrekstur leikmanna úr liðinu fyrr en eftirá? Af hverju heyrði hann aldrei í Arnari til að heyra hans hlið og hvers vegna þessi ofuráhersla á að hann hafi hvergi komið nálægt? Hvað tillöguna varðar herma heimildir mínar að þarna segi þjálfari ósatt, það hafi ekki verið hann sem lagði fram umrædda tillögu en sannleikann vita þeir einir sem sátu fundinn.

Daginn eftir sendir stjórn frá sér yfirlýsingu um að full sátt sé á milli deildarinnar og Arnars og að hann hafi ekki verið rekinn úr liðinu. Síðustu samskipti voru síðan loforð formanns um að komið yrði fram við Arnar af heiðarleika og sanngirni bæði af stjórn og þjálfara. Það sem síðan hefur gerst sýnir að þau hugtök eru ekki til í orðabók Bárðar Eyþórssonar.

Arnar hefur því ákveðið að hætta þar sem hann treystir sér ekki til að vinna lengur með þjálfara og þeim hluta stjórnar sem stóð að baki brottrekstrinum og sýnilega vilja ekki hafa hann í liðinu. Hann vill þakka liðsfélögum fyrir veturinn og óskar þeim  góðs gengis, einnig því fólki sem stendur að baki félaginu og á þakkir skilið og öllum bæjarbúum fyrir stuðninginn í vetur.

Þessi pistill er ekki samin í bræði. Vissulega er ég sár, mér sárnar að fullorðið fólk geti komið jafnilla fram við 19 ára strák eins og gert hefur verið hér. Mér sárnar að horfa uppá að strákur sem ekkert vill annað gera en spila körfubolta og fór í þeim tilgangi einum til Íslands fullur tilhlökkunar geti það ekki vegna örfárra einstaklinga.

Tilgangur þessara skrifa er að skýra hlið Arnars en ekki síður að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Ég virði þá sem eru tilbúnir að gefa af sínum frítíma til að sinna stjórnarstörfum en ég geri þá kröfu að þeir sinni starfinu af heiðarleika og bestu getu og taki málefnalegri gagnrýni og ábendingum.  Það er gott að hafa það almennt að leiðarljósi að það sem gerist í félagasamtökum eins og ungmennafélagi þoli opna umræðu og einnig að allir sem þar starfi komi fram við aðra eins og viðkomandi vill að komið sé fram við hann.

Utanaðkomandi verða að geta lagt fram spurningar og gagnrýni án ótta við að það bitni á þeim og þeirra eða vera svarað með skætingi. Það má heldur ekki ganga útfrá því að allt sé rétt sem sagt er og gert eða eins og einhver lét frá sér fara um þetta mál; „ég þarf ekki að kynna mér málið ég stjórna engu og treysti stjórn og þjálfara til að taka þær ákvarðanir sem þarf.“ Fólk þarf að temja sér gagnrýna hugsun og samþykkja ekki gjörðir eða atburði nema fyrst að hafa rannsakað málið og fallist á rökin.

Virðingafyllst
Björn Sigtryggsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir