Ólýsanleg gleði við völd í Saint-Étienne

Eyvör og Snæbjört Pálsdætur. Mynd/Úr einkasafni.
Eyvör og Snæbjört Pálsdætur. Mynd/Úr einkasafni.

Systurnar Snæbjört og Eyvör Pálsdætur fóru á leik Íslands og Portúgals á Evrópumótinu knattspyrnu í Frakklandi þann 14. júní. Þær segja upplifunina af leiknum ólýsanlega. „Við fjölskyldan gáfum Eyvöru miða á leik Íslands og Portúgals í fermingargjöf einnig fékk hún ferð til Tenerife með foreldrunum. Ferðalag okkar Eyvarar hófst því á Tenerife þar sem spennan jókst dag frá degi. Daginn fyrir leikinn áttum við flug frá Tenerife til Frakklands með smá millilendingu í Barcelona. Stemmingin í Frakklandi og á sjálfu Evrópumótinu var alveg ólýsanleg.“ 

„Landamæravörðurinn, leigubílstjórinn og þjónninn sem afgreiddi okkur voru til að mynda alveg jafn spenntir og við Eyvör. Allir sem við hittum voru áfjáðir í að ræða málin um EM, hverjir myndu sigra? Sáum við leikinn deginum áður? Eða flotta markið? Þessi ólýsanlega gleði var svo sannarlega við völd í Saint-Étienne. Stuðningsmenn beggja liða voru sammála um að hafa gleðina við völd og mikil vinsemd var meðal allra, stuðningsmanna, öryggisvarða, heimamanna sem og annarra. En til að mynda eru líklega myndir af okkur Eyvöru ásamt stuðningsmönnum Portúgala að finna í ófáum símum, en margir hreinlega kepptust við að ná mynd af sér með íslenskum stuðningsmönnum.

Við Eyvör sátum rétt fyrir ofan stuðningssveitina Tólfuna sem var alveg meiriháttar. Stemmingin var alveg frábær, við stóðum, sungum, og klöppuðum allan leikinn og þegar markið hjá Birki kom trylltist allt, við hoppuðum og görguðum líklega í korter á eftir svo mikil var gleðin! Þegar Ronaldo klikkaði svo á aukaspyrnu í tvígang alveg í lok leiksins og leiktíminn rann út var okkur báðum alveg sama þótt að við yrðum raddlausar daginn eftir, við héldum bara áfram að öskra og fagna strákunum líkt og allir hinir stuðningsmennirnir. 

Við Eyvör bjuggumst alls ekki við þessari niðurstöðu. Eyvör var viss um að við myndum tapa en ég hins vegar hélt í vonina og spáði 2-1 sigri fyrir leikinn. Við erum þó báðar sammála um að þessi úrslit eru í raun frábær. Við erum báðar sammála um að stemmingin á vellinum sé eftirminnilegust. Gleðin og ánægjan var svo einlæg svo var það alveg extra sætt að íslensku stuðningsmennirnir yfirgnæfðu Portúgalina alveg gjörsamlega en það heyrðist ekki múkk í þeim. Svo verðum við eiginlega að nefna markið hjá Birki, sem var rosalegt! Við Eyvör erum báðar sammála um að Hannes í markinu hafi án alls vafa verið besti maður leiksins! Sumar markvörslunnar voru eiginlega alveg fáránlegar og við erum ennþá að velta fyrir okkur vörslunni gegn dauðafærinu sem Nani fékk.   

Því miður fjárfestum við einungis í miðum á fyrsta leikinn en miðað við gengið og stöðuna núna þá er aldrei að vita nema að maður skelli sér aftur til Frakklands þegar 16 liða úrslitin verða spiluð, við höfum allavega bullandi trú á strákunum!“ 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir