Óli Adda er Vestlendingur ársins 2009

Óli í leik á Sauðárkróksvelli með liði Skallagríms.

Skessuhorn stóð í tólfta skipti fyrir kjöri á Vestlendingi ársins og alls voru 29 íbúar á Vesturlandi tilnefndir. Af þessu heiðursfólki hlaut Ólafur Adolfsson lyfsali og aðaleigandi Apóteks Vesturlands langflestar tilnefningar en Króksarar muna örugglega eftir því að kappinn fór á sínum tíma mikinn í vörninni hjá Tindastóli.

Óli spilaði undir stjórn Bjarna Jóhanns hjá Tindastóli í kringum 1990 en vakti áhuga Skagamanna og fór svo að hann skipti úr Tindastóli í ÍA þar sem hann stóð heldur betur fyrir sínu. Hann spilaði 21 landsleik og gerði í þeim eitt mark. Óli spilaði síðustu sumur með Skallagrími og var einmitt þjálfari þeirra þegar Skallagrímur og Tindastóll mættust 16. júní 2007 en þann dag héldu knattspyrnumenn Tindastóls upp á 100 ára afmæli félagsins.

Nú fer kappinn hinsvegar mikinn í starfi lyffræðings og hefur vakið talsverða athygli í fjölmiðlum í stríði við Lyfju á Akranesi. Í Skessuhorni segir: -Svo vitnað sé til orða þeirra sem tilnefndu hann þá hlýtur Ólafur þessa viðurkenningu fyrir brautryðjendastarf og nýjungar í lyfsölumálum og fyrir að stuðla að aukinni samkeppni í greininni neytendum til hagsbóta. Apótek Vesturlands var stofnað árið 2007.

Feykir óskar Óla til hamingju með kjörið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir