Ólafur Sveinsson - Minning
Ólafur Sveinsson fyrrverandi yfirlæknir Sjúkrahúss Skagfirðinga á Sauðárkróki lést 10. maí s.l. á 96. aldursári. Hann var Vestfirðingur, fæddur á Góustöðum í Skutulsfirði 3. september 1927. Hann lauk læknanámi frá Háskóla Íslands og eftir sérnám í Svíþjóð flutti hann til Sauðárkróks í desember 1960 með eiginkonu sinni, Ástu Karlsdóttur og fjölskyldu, ráðinn skurðlæknir og yfirlæknir við nýbyggt sjúkrahúsið og starfaði þar í 36 ár eða þar til hann fór á eftirlaun.
Ég kynntist Kalla syni hans, jafnaldra mínum og æskuvini á fyrsta skóladegi okkar í barnaskóla og við fylgdumst að alla okkar 20 ára skólagöngu. Ég kom því oft á heimili þeirra Ólafs og Ástu. Ólafur reyndar sjaldnast heima enda vinnudagar langir og vaktir flesta daga. Á fyrri hluta starfsferils Ólafs kom það gjarnan í hlut Ástu að svara síma þegar hann var í vitjunum og spurt var eftir vaktlækninum, eins og títt var um maka lækna á þessum árum. Það má því segja að hún hafi verið á eins konar bakvakt. Heimilið var kannski svolítið framandi mér eða öðru vísi en maður átti að venjast, íbúðin hluti af sjúkrahúsbyggingunni og innangengt á milli. Sjúkrahúsið stóð þá eitt og sér á Sauðárhæðum sunnan og ofan við byggðina á Króknum, blasti þar við og talsvert langt í burtu fannst manni. Og “spítalalykt” þegar við stálumst gegnum millihurðina úr íbúðinni inn á ganginn inn á sjúkrahúsið. Kannski bar heimilið merki þess að þar var ungt fólk nýlega flutt heim eftir dvöl í Skandinavíu. Þar voru húsgögn frá IKEA sem ég hafði reyndar ekki hugmynd um hvað var þá og þar heyrði ég fyrst Sven Ingvars hringja á föstudegi úr stereogræjum þeirra hjóna en þær voru mubla, innbyggðar í skenk í stofunni.
Það var síðan ánægjulegt að fá að starfa með Ólafi síðust árin hans hér á Króknum. Ólafur hafði sig ekki mikið í frammi á mannamótum, fremur hlédrægur, jafnvel feiminn en skilaði einstöku vinnuframlagi hér í Skagafirði. Gat líka verið fastur fyrir og fylginn sér enda þurfti oft að taka erfiðar ákvarðanir og stundum í hvelli. Hann tók þátt í starfsemi félaga sem unnu að heilbrigðimálum á svæðinu og gegndi oft formennsku. Í frístundum er mér kunnugt um að hann las mikið, spilaði bridds með félögum sínum, renndi fyrir fisk og var félagi í Lions.
Hann naut ákaflega mikils trausts Króksara og Skagfirðinga enda átti hann þar farsælan feril. Hann bar hag Sjúkrahússins, héraðsins og fólksins sem þar bjó fyrir brjósti, þekkti íbúana og vissi hvaðan fólkið var og frá hvaða bæ það kom. Hann lagði sig fram um að tækjabúnaður og aðbúnaður á sjúkrahúsinu væri sem bestur og í takti við tímann og varð mjög vel ágengt í þeim efnum.
Ég tel að samstarfsfólk Ólafs frá tíma hans hér og Skagfirðingar almennt minnist hans með þakklæti og virðingu. Það geri ég líka og votta Ástu og fjölskyldunni allri samúð mína.
Örn Ragnarsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.