Ódýrast í Skagafirði

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrá fyrir skóladagvistun ásamt hressingu og verði á hádegismat fyrir yngstu nemendur grunnskólanna hjá 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins.

Óhætt er að segja að niðurstöður þeirrar könnunar hafi verið ánægjulegar fyrir íbúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar, en þar kemur fram að lægsta mánaðargjaldið fyrir skóladagvistun m.v. 63 tíma á mánuði, hressingu og hádegismat hvern dag er hjá Sveitarfélaginu Skagafirði á 20.139 kr./mán. en hæsta gjaldið er hjá Garðabæ 33.201 kr./mán. verðmunurinn er 13.062 kr. eða 65%.

Ákveðið var í sveitarstjórn í aðdraganda fjarhagsáætlunargerðar fyrir árið 2014 að ekki skyldi farið í hækkanir á gjaldskrám á þjónustu sem sneri að barnafjölskyldum og kemur það glöggt fram í þessari könnun ASÍ að þær aðgerðir eru að skila tilætluðum árangri. Ekki er langt síðan að könnun á orkukostnaði (hita og rafmagni) heimila var birt og niðurstaða þeirra könnunar sýndi Skagafjörð ódýrastan.

Það er afar mikilvægt að við sem veljumst til setu í sveitarstjórn sköpum þær aðstæður í sveitarfélaginu að Skagafjörður sé sambærilegt við önnur sveitarfélög er kemur að búsetuvali fólks. Mikilvægt er að búið sé þannig um hnútanna að barnafólk geti hugsað sér að setjast hér að og að gera Skagafjörð að heimil sínu og er þetta lóð á þær vogaskálar.
Áfram skal haldið ! Sá góði árangur sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins er forsenda þess mögulegt verið að halda áfram þeirri vegferð sem hér hefur verið mörkuð og er það okkar að tryggja að svo verði.

Stefán Vagn Stefánsson
Formaður byggðarráðs
Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir