Óbærilegur léttleiki Laufskálaréttar

Það er vissulega ekki á hverjum degi sem í boði er að sjá nýja heimildarmynd sem gerð er af Skagfirðingi um þær höfuðdyggðir sem hermt er að sveitungum hans þykir mest til koma, hrossa, lífsgleði og náttúru, það síðasta í ýmsum birtingamyndum. Árni Gunnarsson frá Flatatungu hefur sýnt það með fyrri myndum sínum að hann hefur óvenju næmt auga fyrir samspili þessara þátta og um leið lag á að túlka það á tilgerðarlausan hátt.

Kvikmyndin “Óbærilegur léttleiki Laufskálaréttar”, sem frumsýnd var um liðna helgi í Bifröst fjallar um hinar landsfrægu stóðrétt, Laufskálarétt í Hjaltadal þar sem síðustu helgina í september ár hvert eru réttuð þau hross bænda úr Viðvíkursveit og Hjaltadal, sem ganga í Kolbeinsdalsafrétt á sumrin. Í upphafi er þess getið að leita eigi svara við þeirri spurningu hvað það sé, sem dragi þúsundir gesta ár eftir ár í réttirnar, ýmist sem þátttakendur eða gesti. Myndin er á léttu nótunum þar sem heimamenn fara á kostum í lýsingum sínum á kyngi Kolbeinsdalsins, mannlífinu í réttunum, hrossarækt og smalamennsku. Á engan er hallað þó Birgir á Bakka sé nefndur sérstaklega þar sem hann liggur utan í þúfunni á ásnum fullur af kraumandi kímni og skemmtilegum tilsvörum sem kölluðu fram hlátursrokur í salnum. En myndin er ekki síður áminning um ríkidæmi Íslands og Íslendinga sem "frjálsir í fjallasal" geta haldið hrossum sínum til beitar, ferðast um óbyggðir og ræktað það samband á milli fólks og firninda sem því miður virðist trosna í annan endann smátt og smátt. Myndskotin úr Kolbeinsdalnum frá öllum árstíðum eru hrífandi með andstæður áhyggjuleysis sumarhaganna eina stundina og vetrarríkisins hina og til samanburðar umgjörð hrossahalds í Þýskalandi. Tónlistin er að mestu úr grasrótinni með Steinþór í Kýrholti við píanóið í stofunni heima, þó svo undir lokin sé dásamleg samsetning þar sem Bergþór Pálsson lýkur við lagið Sprett með tilþrifum en við tekur stúlka sem ríður út í ljósvakann syngjandi af einlægni "Hvað er svo glatt."

Enn og aftur hefur Árna tekist að fanga fólkið og fjörðinn okkar, stemmningu stundarinnar. Hvet ég alla unnendur lífs og gleði til að sjá myndina með eigin augum, þess virði er hún sannarlega. Til hamingju Árni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir