Ó þú jörð :: Dagur íslenskrar tungu er í dag
Ó þú jörð, sem er
yndi þúsunda,
blessuð jörð sem ber
blómstafi grunda
sárt er að þú sekkur undir mér.
Hef ég mér frá þér hér
og hníg til þín aftur,
mold sem mannsins er
magngjafi skaptur
sárt er að þú sekkur undir mér
(Jónas Hallgrímsson, 1844)
Svo orti þjóðskáldið ári fyrir andlát sitt. Ljóðið fjallar um samband móður og sonar, náttúrunnar og skáldsins. Þar kveður við tón vonbrigða. Hin mikla móðir hefur brugðist skáldinu, hann slítur á naflastrenginn en hnígur þó aftur í öruggan faðm hennar. Jónas var náttúrufræðingur og skáld. Náttúran var stór þáttur í lífsstarfi hans og verkum. Í þessu ljóði er sem von hans um að maðurinn og náttúran geti átt samleið sér til gagns og yndis hafi brugðist. Nú, 177 árum síðar, þegar jörðin er óðum að sökkva undan okkur, mætti velta fyrir sér hvort Jónas væri ekki fremstur í flokki þeirra sem láta náttúruvernd og loftslagsmál sig varða á 21. öldinni.
Já, ó þú jörð, móðir okkar allra, upphaf okkar og endir, þökk sé þér en fyrirgef oss breyskleika okkar.
Þú hefur ekki brugðist okkur heldur við þér. 214 árum eftir fæðingu þjóðskáldsins okkar, Jónasar Hallgrímssonar, stendur jörðin okkar á heljarþröm. Við höfum misboðið henni og nú berst hún um á hæl og hnakka og reynir að vekja börn sín af svefndrunga áratuga andvaraleysis. Á hverjum tíma er vandi að vera maður og nú er vandinn meiri en nokkru sinni fyrr svo vitað sé í sögu mannkyns. Silfurþráðurinn milli móður náttúru og barna hennar hefur rofnað og að laga það þolir enga bið. Hin mikla móðir er ei lengur mild. Hún hristist og skelfur, logar réttlátrar reiði hennar brjóta sér leið upp á yfirborðið, táraflóð hennar vellur fram í stríðum flóðbylgjum, hún er svo hvöss að stormar geysa. Hún leitast við að aga og tyfta börn sín. Á meðan þráast þau við að þroskast, skella skollaeyrum við ávítum hennar og leika sér að feigðinni eins og einskis nýtu leikfangi, í þeirri trú að þau þurfi á ekki móður að halda. En þegar upp er staðið munu þau hníga aftur í faðm hennar því hún er þegar allt kemur til alls lífgjafinn mikli.
Hvað varð um fegurðina á blómstöfum grunda? Sjáum við hana í svörtum óttaslegnum augum hungraðra barna sem vonaraugum horfa gegnum gaddavírsgirðingar velmegunarinnar? Sjáum við hana í náttúruspjöllum ágangs manns og græðgi? Er jörðin okkar yndi þúsunda eða fárra útvalinna? Það er samhljómur í náttúrunni, hún er fögur og hún er gjöful, og hún er miskunnarlaus og óvægin, en aðeins maðurinn hefur grimmdina að leik. Vökul augu móður jarðar gæta jarðabarna sinna og vara þau við á meðan þau týnast í sýndarveruleika fánýtrar tilveru sinnar?
Ó, þú jörð yndi þúsunda, móðir alls sem lifir, sárt er að þú sekkur undir okkur.
Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir
Framhaldsskólakennari við FNV og ritari Landssambandsstjórnar DKG á Íslandi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.