Nýsköpunarmiðstöð opnar starfsstöð á Sauðárkróki
Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun í febrúar opna starfsstöð á Sauðarkróki þar sem gert er ráð fyrir þremur stöðugildum. Nú þegar hafa verið auglýstar tvær stöður sérfræðinga sem munu sinna rannsóknar- og þróunarverkefnum á Norðurlandi vestra, m.a. á sviði trefjaiðnaðar. Starfsemi Versins – vísindagarða er grunnur að þverfaglegu þekkingarsetri á Sauðárkróki og munu starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar vera með aðstöðu þar.
Starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar á Sauðárkróki er ætlað að efla menntun, rannsóknir og nýsköpun í þágu atvinnuuppbyggingar á svæðinu og kalla fram samlegðaráhrif sem leiða munu til varanlegrar nýsköpunar í atvinnulífi á Norðurlandi vestra.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands er með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði, Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði. Auk starfsstöðvarinnar á Sauðárkróki mun Nýsköpunarmiðstöð opna nýjar starfsstöðvar á Húsavík og Egilsstöðum á næstunni í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.