Nýsköpun, dans og gleði í Grunnskóla austan Vatna

Linda Fanney Valgeirsdóttir frá Alor með unglingunum í Grunnskóla austan Vatna. Myndir: Gsh.is.
Linda Fanney Valgeirsdóttir frá Alor með unglingunum í Grunnskóla austan Vatna. Myndir: Gsh.is.

Í síðustu viku voru allir nemendur Grunnskóla austan Vatna saman á starfsstöð á Hofsósi og unnu þeir að nýsköpun og fengu danskennslu frá Ingunni Hallgrímsdóttur. Unglingastigið vann með þemað Nýsköpun en nemendur miðstigs og yngsta stigs unnu nýsköpunarverkefnin sín einstaklingslega eða í pörum.

Á heimasíðu skólans kemur fram að nemendur unglingastigs, sem unnu með þemað Nýsköpun og nærsamfélagið, veltu því fyrir sér hvernig hægt er að efla heimabyggðina og skólann.

„Þau fengu heimsóknir frá Lindu Fanneyju Valgeirsdóttir frá ALOR þar sem hún fræddi nemendur um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í orkugeiranum. Magnús Barðdal frá SSNV fyrir hönd Norðanáttar fræddi þau um mikilvægi nýsköpunar, frumkvöðlastarfsemi og markaðssetningar er kemur að atvinnusköpun á landsbyggðinni.

Á þriðjudag sóttu þau Vesturfarasetrið heim þar sem þau skoðuðu sýninguna og fengu innblástur frá Valgeiri um hvernig ótrúlegustu hugmyndir geta orðið að veruleika. Að auki voru þær Helga og Solla heimsóttar í endurnýtingarmiðstöðina Verðandi, nemendur fengu að taka til hendinni, bæði við saumaskap og smíðar,“ segir á gsh.is.

 

Þá unnu nemendur miðstigs og yngsta stigs nýsköpunarverkefnin sín einstaklingslega eða í pörum og lærðu ferla nýsköpunar og líkanagerð. Í lok vikunnar var svo dans- og nýsköpunarsýning, þar sem gestir gátu séð afrakstur nýsköpunarvinnunnar.

Á heimasíðu skólans má finna fjölda mynda frá vinnu nemenda austan Vatna, sjá HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir