Nýskipað Ungmennaráð Skagafjarðar hélt sinn fyrsta fund
Nú um miðjan desember fór fram fyrsti fundur nýskipaðs Ungmennaráðs Skagafjarðar. Á fundinum var farið yfir hlutverk ráðsins og hvernig það getur beitt sér fyrir því að hafa áhrif á málefni ungmenna innan sveitarfélagsins.
Í frétt á heimasíðu Skagafjarðar kemur fram að Ungmennaráð skal skipað sjö einstaklingum á aldrinum 14-20 ára sem skulu hafa lögheimili í Skagafirði. Ráðið kýs sér sjálft formann, varaformann og ritara.
Hlutverk Ungmennaráðs er eftirfarandi:
- að þjálfa ungt fólk í lýðræðislegum vinnubrögðum.
- að efla tengsl ungmenna í sveitarfélaginu og auka tengsl þeirra við stjórnkerfi sveitarfélagsins.
- að vera sveitarstjórn til ráðgjafar um málefni ungs fólks í Skagafirði.
- að gera tillögur til félagsmála- og tómstundanefndar og sveitarstjórnar um hvernig best væri að standa að forvarnarmálum ungmenna.
- að leggja fram tillögur um það hvernig æskilegt væri að haga starfsemi stofnana sveitarfélagsins.
- að gera tillögur um þátttöku ungmenna í viðburðum á vegum sveitarfélagsins.
Ungmennaráð Skagafjarðar skipa Mikael Jens Halldórsson formaður, Katla Huld Halldórsdóttir varaformaður og Óskar Aron Stefánsson ritari sem skipuð eru til tveggja ára en meðstjórnendur eru Íris Helga Aradóttir, Hulda Þórey Halldórsdóttir, Trausti Helgi Atlason og Markús Máni Gröndal sem eru skipuð til eins árs.
Félagsmála- og tómstundanefnd skipar Ungmennaráð að fengnum tillögum frá nemendafélögum Árskóla (2 fulltrúa), Varmahlíðarskóla (1), Grunnskólans austan Vatna (1) og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (2). Þá tilnefnir UMSS einn fulltrúa í ráðið.
Nánar má lesa um reglur Ungmennaráðs með því að smella hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.