Nýrnaígræðsla Sigrúnar Margrétar gekk vel
Sigrún Margrét Einarsdóttir er tveggja ára stúlka í Skagafirði sem fór nýverið til Svíþjóðar í líffæraskipti þar sem hún fékk nýra frá föður sínum Einari Ara Einarssyni. Aðgerðin fór fram í upphafi mánaðarins og gekk vel og segir á styrktarsíðu Sigrúnar að þeim feðginum heilsist vel.
Það var þann 3. september 2020 sem lítil stúlka fæddist á Landspítalanum við Hringbraut, fyrsta barn foreldra sinna, þeirra Jónu Kristínar Vagnsdóttur frá Minni-Ökrum í Skagafirði og Einars Ara Einarssonar frá Skagaströnd. Á 34. viku meðgöngunnar kom í ljós að Sigrún væri með alvarlegan nýrnasjúkdóm en nýru hennar voru langt yfir meðalstærð og einnig voru blöðrur á þeim og kom í ljós um tveggja mánaða aldur að um er að ræða nýrnasjúkdóm sem gengur undir nafninu NPH (Juvenile nephronophthisis) eða MCKD (Medullary cystic kidney disease). Þá var strax ljóst að í framtíðinni þyrfti Sigrún Margrét að fara í nýrnaígræðslu.
Þar sem augljóst var að tíðar sjúkrahúsferðir og langdvalir að heiman yrðu kostnaðarsamar var stofnaður styrktarreikningur fyrir fjölskylduna þar sem hægt er að leggja þeim lið. Á styrktarsíðu Sigrúnar Margrétar á Facebook er hægt að fylgjast með litlu fjölskyldunni og nú má sjá smá fréttir af því hvernig hefur gengið síðustu vikuna:
„Sigrún byrjaði að losa svefninn sunnudagskvöldið 5. febrúar og var þá ákveðið að taka túbuna í burtu og hún var þá meðvituð um okkur en samt á róandi og sterkum verkjalyfjum. Það var á tímabili sem skoðað var að setja hana í blóðskiljun því hún var ekki að pissa nóg og var farin að erfiða við öndun. Það þurfti ekki því hún fór allt í einu að pissa á fullu sem var æðislegt. Við fórum svo af intensive care á þriðjudeginum og á svipaða deild og legudeildin heima á barnaspítalanum. Sigrún er öll að hressast og farin að segja til hvað hún vill og segja nei svo þetta er allt í rétta átt.
Enginn áreiðanleg skýring var á háa hitanum. Nema það að við fengum í eitt skipti persónulegt álit á því og það var að hann gæti stafað út af öllum þeim lyfjum sem hún var á þegar henni var haldið sofandi. En hann hætti þegar að við fórum af intensive care. Hún fékk í eitt skiptið hitakrampa meðan henni var haldið sofandi og allt var skoðað hvort eitthvað hefði skaðast en allt var í lagi sem var léttir. Það er hugsað svo vel um okkur hérna í Gautaborg og Sigrún er farin að aðstoða við þegar að hún á að fá lyf eða mjólk sem öllum hjúkkunum finnst svo gaman að sjá.
Við foreldrarnir fórum í gær (sunnudag) og áttum góðan dag saman tvö meðan ömmurnar stjönuðu í kringum dömuna. Við fórum á safn og skoðuðum aðeins Gautaborg og fengum okkur svo góðan mat um kvöldið. Þar sem það voru þrjú ár síðan að við fengum staðfest að þessi ákveðna, duglega og flotta dama sem við eigum væri á leiðinni sem og að ég sagði já svo við fögnuðum því einnig í gær. Takk æðislega fyrir okkur, kveðjurnar, hugulsemina og hjálpina.“
Fyrir þau sem vilja styrkja fjölskylduna er reikningsnúmer styrktarsjóðsins 0370-13-400966 og kennitalan 210995-3589.
Tengd frétt: Safnað fyrir Sigrúnu Margréti :: Með alvarlegan nýrnasjúkdóm
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.