Nýjar höfuðstöðvar Vegagerðarinnar
Vegagerðin hefur flutt höfuðstöðvar sínar úr Borgartúni 5-7 í Reykjavík í Suðurhraun 3 í Garðabæ. Með nýjum höfuðstöðvum verður starfsemi Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu sameinuð á einn stað en Vegagerðin var áður á þremur stöðum, í Borgartúni, Vesturvör í Kópavogi og Hringhellu í Hafnarfirði.
Í tilkynningu Vegagerðarinnar segir að flutningurinn hafi staðið yfir undanfarna daga og vikur og hefur stærstur hluti starfsmanna þegar hafið störf í nýju húsnæði. Viðskiptavinum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu er nú vísað á nýjan stað en móttaka gesta og allra sem þurfa að leita til stofnunarinnar er nú formlega flutt í Garðabæinn. Engar breytingar verða á starfseminni á svæðisstöðvum og þjónustustöðvum Vegagerðarinnar út um allt land.
„Stofnunin hefur allt frá upphafi haft höfuðstöðvar í Reykjavík sem hafa tengst Borgartúni 5-7 enda verið þar með starfsemi í tæp 80 ár eða allt frá árinu 1942 fyrst í Borgartúni 5 og verkstæðisbyggingu en síðar einnig í Borgartúni 7 ásamt viðbyggingum þar.
Áform hafa verið lengi uppi um nýtt húsnæði en þau frestuðust í hruninu árið 2008 en voru tekin upp aftur um áratug síðar. Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsti eftir húsnæði fyrir Vegagerðina 2018. Meðal þeirra sem skiluðu tilboði var fasteignafélagið Reginn sem bauð Suðurhraun 3. Varð niðurstaðan eftir talsverða skoðun að semja við fyrirtækið.
Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins hf. skrifuðu undir samkomulag um byggingu höfuðstöðvanna í mars 2020. Reginn byggði húsnæðið og á það en Vegagerðin leigir til langs tíma. Eldra húsnæði í Suðurhrauni var notað að hluta en mestmegnis er um nýsmíði að ræða. Alls 6.000 fermetra skrifstofu- og geymsluhúsnæði. Þá er 9.000 fermetra útisvæði á lóðinni. Verktaki við smíðina var ÍAV hf.,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.