Ný færanleg hraðamyndavél tekin í notkun hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra
Embætti lögreglunnar á Norðurlandi vestra hefur tekið í notkun nýtt tæki sem auðvelda mun starf lögreglunnar við umferðareftirlit. Tækið er færanleg hraðamyndavél, auðveld í meðförum, sem hægt er að staðsetja nánast hvar sem segja þeir Ívar Björn Sandholt Guðmundsson lögregluþjónn, og Pétur Björnsson, yfirlögregluþjónn.
Ívar segir að hægt sé að ljósmynda alla sem aka framhjá án þess að þurfa að hafa sérstök afskipti af ökumönnum eins og gert hefur verið hingað til. Þá munu þeir sem brjóta af sér fá send sektarboð líkt og gerist þegar ökumenn eru gripnir með hraðamyndavélum.
„Við viljum líka nota þetta sem forvarnartæki og munum láta vita á Facebooksíðu okkar þegar við förum að mæla í þéttbýli í umdæminu. Þá getum við líka notað þetta sem fyrirbyggjandi aðgerð,“ segir Pétur og bætir við að ekki verði látið vita þegar mælt er á þjóðvegi.
„Helsta markmiðið er að hægja á umferð innan bæjar. Ég hef tekið eftir því, þegar maður er á ferðinni með radarinn í bílnum, að menn keyra of hratt, sérstaklega á þessum 30 köflum hér á Sauðárkróki,“ segir Ívar.
Auk þess að nýtast vel í hraðamælingum er einnig hægt að nota tækið í öðru eftirliti þar sem myndavélin býr yfir góðum aðdrætti og því hægt að sjá hvort ökumenn séu að tala í farsíma eða eru ekki í belti á meðan á akstri stendur. Segja þeir félagar því ýmsa kosti prýða tækið en það er einnig sjálfvirkt þannig að það getur virkað án þess að lögreglan sé viðstödd. „Kosturinn er líka sá, þar sem ekki er alltaf auðvelt að koma lögreglubílunum að þar sem við viljum vera, t.d. á Aðalgötunni hér á Króknum. Það er enginn heppilegur staður þar sem hægt er að staðsetja lögreglubíl í hraðamælingum. Þessi græja, á þrífæti, leysir það,“ segir Ívar .
Tækið var prófað um síðustu helgi á þjóðveginum við Varmahlíð og voru tæplega 200 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur, þar af 111 á einum klukkutíma.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.