Nú er tíminn til að safna birkifræi

Myndir: Áskell Þórisson.
Myndir: Áskell Þórisson.

Skógræktin og Landgræðslan óska eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins. Í haust sem leið var safnað umtalsverðu magni af birkifræi sem var að hluta dreift haustið 2020 en í vor var afganginum dreift á valin, beitarfriðuð svæði. Söfnunarátakið í fyrra gekk afar vel og áhugi almennings var mikill. Í Skagafirði taka Skagfirðingabúð og Olís-Varmahlíð á móti fræi, á Blönduósi að Efstubraut 5 og Vallarbraut 2 á Skagaströnd.

Þegar fræ á birki hefur þroskast er hægt að hefja söfnun fræsins og á heimasíðu Landgræðslunnar kemur fram að á sumum stöðum megi gera ráð fyrir að birkireklar verði fullþroskaðir fyrir eða um miðjan september. Í fyrra safnaðist mest á Suður- og Vesturlandi en þar var með eindæmum gott fræár en frekar lélegt á Norður- og Austurlandi. Núna hefur þetta snúist þannig að á Norðurlandi, og víða á Austurlandi, er fræmagn á trjám með ágætum en mun lakara fyrir sunnan og vestan.

Ekki er óalgengt að fræþroski sé mismikill á milli ára en í fyrra var tekið á móti 274 kg af birkifræi. Í frétt Landgræðslunnar segir að mjög margir hafi dreift fræinu sjálfir sem þeir söfnuðu í fyrra.

„Átakið er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám. Á rýru landi er gjarnan kolefnislosun því þar er gamall jarðvegur enn að rotna. Ef landið klæðist birkiskógi stöðvast þessi losun og binding hefst í staðinn. Svona verkefni eru því líka loftslagsverkefni,“ segir Áskell Þórisson, kynningar- og upplýsingafulltrúi Landgræðslunnar.

Birkið er frumherjategund sem sáir sér mikið út á eigin spýtur ef hún fær til þess frið og heldur því starfinu áfram ef vel tekst til að koma því af stað á nýjum svæðum.

Í haust verða fræbox að finna í verslunum Bónus um land allt en einnig getur fólk fengið box á starfsstöðvum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Hægt er að skila fræjum í Skagfirðingabúð á Sauðárkróki, Olís í Varmahlíð, á Blönduósi að Efstubraut 5 og Vallarbraut 2 á Skagaströnd.

Þá eru fræsöfnunartunnur í Bónus og í starfsstöðvum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar er tekið á móti fræi.

Sjá nánar á birkiskogur.is. 

  

Í fyrra skiluðu margir fræi í bréfpokum og eða pokum úr taui og segir Áskell að setja þurfi miða með upplýsingum um söfnunarstað og dagsetningu í pokana og muna að loka þeim vel. „Ekki nota plastpoka því nýtínd og rök fræ skemmst mjög fljótt. Án efa eru sumir tilbúnir til að sauma fræpoka. Svona pokar eru tilvalin tækifærisgjöf!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir