Norðurbraut – ein fyrsta vegasjoppa landsins – fær yfirhalningu
Húnahornið segir frá því að gamla Norðurbraut, ein fyrsta vegasjoppa landsins, hafi nú verið flutt af Ásunum fyrir ofan Hvammstanga og á athafnasvæði Tveggja smiða en til stendur að gera húsið upp og endurnýja. Á fyrri hluta 20. aldar stóð húsið við botn Miðfjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu, við vegamót Norðurlandsvegar og vegarins inn að Hvammstanga, og í því rekin verslunin Norðurbraut.
Húsið var upprunalega byggt á Hornmýrarholti í landi bæjarins Stóra Óss í Miðfirði á þriðja áratug síðustu aldar ennákvæm dagsetning er ekki kunn og heldur ekki hver lét reisa það. Um 1930 var húsið komið í eigu Sigurðar Davíðssonar kaupmanns sem hafði þá nýlega hafið verslunarrekstur á Hvammstanga en Sigurður rak þar krambúð í um hálfa öld og var hún þekkt fyrir vöruúrvalið.
Í frásögn DV af Norðurbraut frá því árið 2017 segir m.a. að húsið hafi „...tvívegis verið fært á milli staða. Á seinni hluta sjötta áratugarins komu upp deilur milli Sigurðar og landeigendanna í Stóra Ósi. Þá voru sleðameiðar settir undir húsið og það dregið af stórum GMC-trukki inn í þorpið og komið fyrir við hlið krambúðarinnar. Á áttunda áratugnum var það síðan dregið af jarðýtu rétt út úr þorpinu og komið fyrir í landi Syðstahvamms. Þar stendur það, hrörlegt og veðurbarið...“ Klikkt er út með því að nefna að á Hvammstanga sé töluverður áhugi á því að varðveita húsið og nú er komin hreyfing á það.
Árni Johnsen heimsótti Sigurð kaupmann árið 1969 og skrifar um það í bók sinni, Kvistir í lífstrénu: „Þar voru leikföng, helgimyndir, fjósaluktir, frakkar, gullúr, byssur, korselett, perlufestar, slöngur, sökkur, sauðabjöllur, önglar efnisstrangar, plastblóm og margt fleira. Allt í einni kös. Ekki er hægt að sjá í neinn vegginn á versluninni fyrir varningi í hillum, en á stöku stað má sjá í loftið inn á milli varnings sem teygir sig silalega niður.“
Það er næsta víst að það verða örugglega einhverjir spenntir að komast í sjoppuna góðu á ný.
- - - - -
Heimildir: Húnahornið og DV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.