Norðanátt hlýtur 20 millj. króna styrk

Fulltrúar SSNV, SSNE og Eims ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni við undirritun yfirlýsingarinnar.
Fulltrúar SSNV, SSNE og Eims ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni við undirritun yfirlýsingarinnar.

Nýverið var undirrituð samstarfsyfirlýsing milli SSNV, SSNE, Eims og umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins um Norðanátt, verkefni sem styður við nýsköpun með áherslu á loftlagsmál og hringrásarhagkerfið. Um er að ræða stuðning í gegnum Sóknaráætlanir landshlutanna. Er þetta í fyrsta sinn sem umhverfisráðuneytið veitir fjármagni inn í Sóknaráætlanir landshlutanna með þessum hætti en það hefur verið áherslumál landshlutasamtaka um árabil vegna aukinnar áherslu á umhverfismál um land allt. Ráðuneytið mun styrkja verkefnið um 20 milljónir króna.

Samstarfsverkefnið Norðanátt er nýsköpunarhreyfing sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki og styðja þau frá fyrstu skrefum þróun hugmyndar yfir í leit að fjárfestum. Norðanátt vinnur þvert á helstu stofnanir samfélagsins og sækir styrk sinn til sveitarfélaga, atvinnulífsins, frumkvöðla og öflugs stuðningsumhverfis frumkvöðla á höfuðborgarsvæðinu. Í síðustu hringrás Norðanáttar var m.a. haldið lausnamót, viðskiptahraðall og fjárfestamót. Ný hringrás hófst með Norðansprotanum, nýsköpunarkeppni sem haldin var í Nýsköpunarvikunni dagana 16.-20. maí sl.

„Loftslagsmálin eru ein stærsta áskorun sem Ísland og heimurinn allur stendur frammi fyrir. Hringrásarhagkerfið er mikilvægur liður í lausn á þeim vanda og skiptir nýsköpun, þátttaka samfélags og atvinnulífs miklu máli. Þar má enginn verða útundan og mikilvægt að allir landshlutar taki þátt. Þessvegna er ánægjulegt að vera með í þessu góða samstarfi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra.

„Samstarfið um Norðanátt hefur reynst okkur á Norðurlandi vestra gjöfult og gagnlegt. Nýsköpunarfyrirtæki á Norðurlandi öllu hafa með samstarfinu fengið vettvang til að eflast og víkka út tengslanetið og þegar hefur fjöldi áhugaverðra verkefna fengið stuðning. Stuðningur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins er verkefninu afar mikilvægur, ekki aðeins fjárhagslega, heldur er hann einnig dýrmæt viðurkenning á verkefninu og þörfinni fyrir þann stuðning sem það veitir frumkvöðlum á Norðurlandi” segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV.

/ssnv.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir