Nördaferð á U2 tónleika væri geggjuð / BALDVIN SÍMONAR
„Ég er sonur Símonar Skaphéðinssonar frá Gili og Brynju Ingimundardóttur frá Ketu í Hegranesi,“ segir Baldvin Ingi þegar Tón-lystin krækir í brottfluttan Króksarann. „Mér skilst að ég hafi tekið mín fyrstu skref hjá afa í Ketu en hann þurfti að hafa smá stjórn á mér þar. Afi átti Ketu áður en Símon [Traustason] keypti býlið. Þegar ég var á þriðja ári fluttum við á Krókinn, í Birkihlíð 19, og síðar í Dalatúnið sem eru í mínum huga æskustöðvarnar.“
Baldvin, sem er fæddur árið 1971, segist nú vera búinn að búa meira en hálfa ævina utan Skagafjarðar en býr nú í Mosfellsbæ og hefur gert síðan 2015.
Eins og svo margir þá gutlar Baldvin í músík en hljóðfærið hans er gítarinn og hefur alltaf verið. „Það kom aldrei neitt annað til greina. Reyndar hefur mig í seinni tíð alveg langað til að kunna á fleiri hljóðfæri, til dæmis píanó,“ segir hann. „Ég byrjaði að læra hjá Rögnvaldi organista í tónlistarskólanum á Sauðárkróki ... og svo kom Inga Rún (Grýlurnar) mér í gengum fyrsta stigið í klassískum gítarleik. Síðan tók hljómsveitarbrölt yfir. Vildi í dag hafa lært meira. Þó ég hafi átt hin ýmsu tímabil í lífinu þá hefur gítarinn alltaf fylgt mér og er ég hálf ómögulegur án hans.“
Baldvin segir að fyrir utan það að þora upp á svið – þar á meðal á pöbb í Englandi, að hafa tekið þátt í Músíktilraunum Tónabæjar og í tvígang í keppni hjá Stuðmönnum í Húnaveri um verslunarmannahelgi (til að fá frítt inn) – þá hljóti það að hafa verið hans stærsta afrek á tónlistarsviðinu að hafa skellt sér á söngnámskeið. „Í kjölfarið hef ég gefið út tvö lög þar sem ég söng sjálfur. Það var gamall draumur að eiga útgefið lag. Vonandi kemur þriðja lagið út núna í haust,“ segir Baldvin Ingi.
Hvaða lag varstu að hlusta á? „Ég reyndar hlusta ótrúlega mikið á útvarp, þá Bylgjuna aðallega, finnst þægilegt að láta það liggja í bakgrunninum. Þegar ég er kominn með nóg af auglýsingum þá skipti ég oft yfir á Spotify og þá hlusta ég jafnvel á lag eftir sjálfan mig. Eins er ég stundum að hlusta á grófupptökur af lagahugmyndum sem ég er að vinna með. Já, nú er verið að spila Pride (In the Name of Love) með U2 – fær mig alltaf til að brosa.“
Uppáhalds tónlistartímabil? „Í raun hlusta ég á allt mögulegt. Ætli það sé ekki gott melódískt rokk og kannski það tímabilið er ég var að alast upp og var sem mest í hljómsveitarleiknum. Queen, Dire Straits, Rolling Stones, The Beatles, U2, Bon Jovi, REM, Egó, Grafík, Todmobil, Sálin og SSSól, sem dæmi. Svo líka alls konar gítartónlist.“
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Það er í raun margt og margt gott í gangi í dag eins og alltaf. Leiðist reyndar mjög eintakta og eintóna tónlist, eins og ég kalla hana, sem er svolítið í tísku í dag. Adele fær mig til að sperra eyrun, eins og fyrsta skiptið er ég heyrði í henni. Rolling in the Deep er geggjað. Enya mætti líka vera meira spiluð!“
Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? „Ef ég færi inn á Spotify þá myndi ég sjálfsagt velja Bon Jovi lagið It‘s My Life eða Þúsund sinnum segðu já með Grafík eða bara eitthvað allt annað.“
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Þó foreldrar mínir hafi verið mjög hrifnir af Rolling Stones, The Beatles, Bee Gees og íslenska efninu, þá var mest verið að hlusta á útvarpið. Mannakorn, Halli og Laddi, Björgvin Halldórs er það sem kemur upp í hugann.“
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Einhvern tímann hefði ég munað það en sjálfsagt hafa það verið kasettur með Egó; þá Egó í mynd eða Breyttir tímar, keyptar hjá Ástvaldi.“
Hvaða græjur varstu þá með? „Ég eignaðist nokkuð snemma segulbandstæki – hef sjálfsagt ekki hætt að nudda fyrr en ég fékk að kaupa það. Síðar fékk ég hljómflutningsgræjur í fermingargjöf er ég átt mjög lengi (draumagjöf) ásamt geislaspilurum er komu síðar.“
Hljómsveitarbrölt á táningsárunum. Hér er
Addi Kjartans á trommur, Héddi Sig spilaði
á gítar og söng og Baldvin spilaði á gítar.
Auk þeirra voru Jón Oddur á hljómborð og
Halldór Þorvalds á bassa. Myndin er sennilega
frá því á jólaballi í Gagganum á Króknum 1984.
Hljómsveitarmeðlimi grunar að nafn
sveitarinnar hafi verið Rom á þessum tíma.
MYND AÐSEND
Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? „Ja, sjálfsagt hefur það verið Fjöllin hafa vakað með Egó. Hefur enn sterk áhrif á mig og ég hækka alltaf ef ég get þegar ég heyri í því og spila helst með. Eitt af fyrstu lögunum er við spiluðum þegar ég byrjaði í hljómsveit.“
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? „Ég er yfirleitt búinn að skipta yfir á eitthvað annað eða slökkva áður en svoleiðis gerist.“
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Ætli U2 verði ekki fyrir valinu.“
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Ég er til í margt. Þó það sé yfirleitt eitthvað eins og Sprengisandur. Finnst mjög gott að heyra áhugaverða umfjöllun, en ef hún ofbýður mér, þá skipti ég yfir á eitthvað annað.“
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Ég hef alltaf ætlað mér að sjá U2 á tónleikum, þarf að drífa það af. Helst einhvern er hefur sömu ástríðu og ég fyrir U2. Nördaferð væri geggjað.“
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? „Það voru fjórar rokksyrpur er ég átti og tapaði frá mér síðar og hef ekki fundið aftur.“
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? „Ég hef yfirleitt verið nokkuð sáttur við sjálfan mig en það eru margir er hafa haft áhrif á mig í gengum tíðina. Reyndar reyni ég að læra af öllum er ég hef tækifæri til. Kannski er það samt tónlistarmaðurinn Bubbi Morteins er hefur hvað mest áhrif haft á mig þegar á heildina er litið. Vildi allavega hafa meira af hans hæfileikum þegar kemur að tónlist.“
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? „Ég get ómögulega svarað því hvaða plata það er, koma of margar til greina. Sú er skiptir mig mestu máli er kannski ekki komin út enn þá!“
Topp 7 í síma Baldvins:
It‘s My Life / Bon Jovi
Eye of the Tiger / Survivor
Bring Me To Life / Evanescence
Don‘t Stop Me Now / Queen
Losing My Religion / R.E.M.
Vertigo / U2
The Adventures of Rain Dance Maggie / Red Hot Chili Peppers
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.