Sex fluttir með sjúkrabílum til Akureyrar eftir að rúta valt út í Svartá
Rúta með fimmtán manns innanborðs valt út í Svartá við Saurbæ í gamla Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði um hálf þrjú í dag. Mbl.is hefur eftir Svavari Atla Birgissyni, slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Skagafjarðar, að enginn sé í lífshættu en nokkrir munu þó vera alvarlega slasaðir.
Þegar slökkviliðið kom á vettvang voru allir komnir út úr rútunni en hún lá á hliðinni ofan í ánni og aðstæður því erfiðar. Í frétt Mbl.is segir að almannavarnaviðbragð á svæðinu hafi verið virkjað, fjöldahjálparstöð opnuð, björgunarsveitir, lögregla og sjúkraflutningar kallaðir til.
Aðgerðirnar ganga vel að sögn Svavars og verið sé að taka farangur og allt dót úr rútunni en síðar verði unnið úr því að rétta rútuna við og koma henni úr ánni. Hann býst við því að aðgerðir muni standa fram eftir degi.
Rúv.is hefur eftir Höskuldi B. Erlingssyni, aðalvarðstjóra Lögreglunnar á Norðurlandi vestra, að sex farþegar voru fluttir með sjúkrabílum til Akureyrar þar sem hlúð verður að þeim, hinum níu sem voru í rútunni verður ekið til Akureyrar með björgunarsveitarbílum.
Heimild: Mbl.is og Rúv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.