Nóg að gera hjá yngri flokkum Tindastóls í körfubolta

Strákarnir í MB10
Strákarnir í MB10

Það eru búnar að vera miklar körfuboltaveislur síðustu tvær helgar hjá yngri flokkum Tindastóls þrátt fyrir gular og appelsínugular viðvaranir á öllu landinu. Frá 4. febrúar er búið að spila 21 leik og af þeim voru aðeins þrír spilaðir í Síkinu sem þýðir að okkar fólk hefur þurft að ferðast um allt land til að spila sína leiki.

Helgina 4. og 5. febrúar voru bæði 8. flokkur stúlkna og drengja að spila á Reykjavíkursvæðinu. 8. fl. stúlkna spilaði þrjá leiki í Kennaraháskólanum og fóru úrslitin því miður ekki okkur í hag en tæpt var á munum í þrem leikjum og eru stelpurnar alltaf að bæta sig leik frá leik. 

    Tindastóll – Valur 27-40

    Tindastóll – Grindavík 32-33

    Tindastóll – Ármann 28-30

8. fl. drengja spilaði svo fjóra leiki í Umhyggjuhöllinni og fóru þeir þannig að þeir unnu þrjá og töpuðu einum.

   Tindastóll – KR 44-16

   Tindastóll – Stjarnan 31-28

   Tindastóll – Höttur 23-48

   Tindastóll – Afturelding 45-29

Föstudaginn 10. febrúar mættust Tindastóll og Höttur í 10. flokki drengja og var búist við hörkuleik. Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan 35-32. Í seinni hálfleik fóru okkar strákar á kostum, lokuðu vörninni og skoruðu hverja körfuna á fætur annarri, og var staðan 59-43 eftir þriðja leikhluta. Í fjórða leikhluta fengu svo yngri strákar að spreyta sig, Kjartan og Helgi Sigurjón (2009) og Baltasar og Aron Darri (2010), og stóðu þeir sig frábærlega. Aron Darri náði t.d að að skora tvö stig og urðu lokatölur 76-65.

Á laugardeginum 11. febrúar lögðu drengirnir í 10. flokkur drengja af stað suður til að keppa við KR b með aðeins sex stráka á skýrslu. Mikið jafnræði var með liðunum í byrjun og var staðan 12-13 eftir fyrsta leikhluta. Okkar strákar byrjuðu annan leikhluta af miklum krafti og höfðu KR-ingar engin svör, staðan í hálfleik 20-34. KR komu sterkir inn í seinni hálfleik á sama tíma og okkar strákar voru farnir að þreytast þar sem þeir voru einungis með einn skiptimann á meðan KR-ingar spiluðu tólf strákum. Þeir söxuðu því vel á forskotið en okkar strákar náðu að halda haus, lokatölur 55-62 fyrir Tindastól.

Helgina 11. – 12. febrúar spiluðu MB10, í bæði drengja og stúlkna, á fjölliðamótum. Stelpurnar brunuðu á Selfoss og spiluðu þar fjóra leiki í b-riðli og unnu þær alla sína leiki. Þær spila þar að leiðandi í A-riðli í apríl.

    Tindastóll – Snæfell 20-10

    Tindastóll – Selfoss 17-15

    Tindastóll – Njarðvík 18-15

    Tindastóll – Þ./Hamar 23-20

MB10 drengja spilaði svo fjóra leiki í C-riðli í ÍR heimilinu í Skógarseli og unnu alla sína leiki mjög sannfærandi. Þeir spila þar að leiðandi í B-riðli í apríl þegar fjórða og síðast umferð verður spiluð.

    Tindastóll – Ármann 37-17

    Tindastóll – KR 35-29

    Tindastóll – Fjölnir 30-10

    Tindastóll – Afturelding 36-16

Á sunnudeginum 12.febrúar mættust Tindastóll og Ármann í 11. flokki drengja og gekk okkar strákum brösuglega að hitta í körfuna í byrjun á meðan allt fór ofan í hjá Ármanni, staðan 46-31 í hálfleik. Sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik og var greinilegt að okkar strákar voru orðnir þreyttir enda var stór hluti af liðinu að spila sinn fjórða leik á sex dögum (spiluðu við Þór Ak mánudaginn 6. feb sem tapaðist 82-78 í 11. flokki) og voru lokatölur 97-60 Ármanni í vil.

8.fl stúlkna spilaði einnig leik sunnudaginn 12. febrúar hér í Síkinu á móti Þór. Ak./Samherja. Lokatölur voru 11-38 fyrir Tindastól, glæsilegur sigur hjá stelpunum. 

Ungmennaflokkur drengja spilaði svo við Hött 13. febrúar og loksins var kominn heimaleikur hjá strákunum en þeir hafa ekki átt heimaleik í rúma þrjá mánuði. Strákarnir sýndu áhorfendum leiksins hvers vegna þeir eru í efsta sæti í deildinni, frábær skemmtun og troðsla, og unnu þeir leikinn 98-73.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir