Níu mörk Njarðvíkinga í erfiðum fyrsta leik Kormáks Hvatar

Eins og kunnugt er þá náði sameinað lið Kormáks og Hvatar þeim fína árangri síðasta sumar að komast úr kviksyndi 4. deildarinnar í knattspyrnu og upp í 3. deild. Húnvetningar léku fyrsta leik sinn á undirbúningstímabilinu í dag við 2. deildar lið Njarðvíkur en spilað var í Nettó-höllinni í Reykjanesbæ í 1. umferð Lengjubikarsins. Heimamenn í Njarðvík reyndust talsvert sterkari í leiknum og sigruðu 9-0.

Bessi Jóhannsson kom Njarðvík yfir á 9. mínútur og Ari Már Andrésson bætti við marki tveimur mínútum síðar. Næstu tvö mörk komu síðan á 35. og 40. mínútu en þau gerði Bretinn snöggi, Kenneth Hogg, sem spilaði sín fyrstu sumur á Íslandi með liði Tindastóls, 2016 og 2017, en hefur leikið með liði Njarðvíkur síðan. Bergþór Ingi Smárason bætti fimmta markinu við á markamínútunni og staðan 5-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik gerði Magnús Þórir Matthíasson tvö mörk og Oumar Diouck eitt áður en Hogg fullkomnaði þrennuna á 89. mínútu.

Sex lið eru í riðli með Kormáki Hvöt í riðli 3 í B-deild Lengjubikarsins en auk Njarðvíkur mæta Húnvetningarnir Elliða úr Árbæ, Haukum og ÍH úr Hafnarfirði og KFG úr Garðabænum. Allir leikir liðsins fara fram á höfuðborgarsvæðinu en næst mæta strákarnir á Fylkisvöllinn 27. febrúar og ætla þá eflaust að gera betur en í dag.

Áfram Kormákur Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir