Nemendur Árskóla meðal Grænna frumkvöðla framtíðar í nýjum þætti á N4
Fimmtudaginn síðasta var frumsýndur þáttur á sjónvarpsstöðinni N4 um verkefnið Grænir frumkvöðlar framtíðar. Verkefnið hefur verið í gangi hjá Matís í rúmt ár og er markmið þess að kenna ungmennum um loftslagsbreytingar á frumlegan og nýstárlegan hátt, en jafnframt að kenna þeim að sjá þau tækifæri sem leynast í eigin heimabyggð.
Þrír grunnskólar, Árskóli á Sauðárkróki, Nesskóli í Neskaupstað og Grunnskóli Bolungarvíkur tóku þátt ásamt FabLab smiðjum á hverjum stað, Djúpinu Frumkvöðlasetri og Matís. Í tilkynningu frá Matís kemur fram að nemendur hafi tekist á við fjölbreytt viðfangsefni yfir skólaárið en þeir heimsóttu meðal annars sjávarútvegsfyrirtæki í sínum heimabæ og tóku þátt í nýsköpunarkeppni, eins og komið er að í þættinum.
„Í vetur hefur þáttagerðarfólk frá N4 fylgst með framgangi verkefnisins og er þessi þáttur afrakstur þeirrar vinnu. Matís þakkar N4 kærlega fyrir samstarfið,“ segir í frétt Matís.
HÉR fyrir neðan má sjá þáttinn í heild sinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.