Naumt tap gegn Snæfelli í hörkuleik
Kvennalið Tindastóls í körfunni hélt í Stykkishólm í gær og lék við Snæfell í 1. deildinni. Ekki náðu stelpurnar að fylgja góðum sigri á Stjörnunni síðasta laugardag eftir þar sem þær töpuðu naumlega 61 – 55. Stelpurnar voru lengi í gang og má segja að leikurinn hafi ráðist strax í fyrsta leikhluta þar sem gestgjafar skoruðu 22 stig en Stólar aðeins 11 en því miður dugði ótrúlegur viðsnúningur í 3. leikhluta ekki til. Annar leikhluti var mun betri hjá Stólastelpum sem náðu að bæta 15 stigum í sarpinn og héldu Snæfelli í 18 stigum og staðan í hálfleik 40 - 26.
Eitthvað hefur Jan þjálfari náð að sannfæra stelpurnar um að leikur sé aldrei búinn fyrr en lokaflautið gellur því þær komu vel gíraðar til leiks eftir hlé og héldu heimastúlkum í heljargreipum sem skoruðu aðeins tvær körfur í leikhlutanum eða 4 stig gegn 14 stigum Stóla. Heldur betur saxaðist á forskot gestgjafanna sem enn leiddu 44 – 40 þegar lokaleikhlutinn hófst. En Snæfell er vel mannað lið og lét ekki deigan síga þrátt fyrir áhlaup gestanna og náðu vopnum sínum aftur og unnu baráttuna í síðasta leikhlutanum 17 – 15 og leikinn með 6 stigum 61 – 55.
Madison Anne Sutton lék allar mínútur leiksins og var stigahæst Stólastúlkna með 16 stig en Anna Karen Hjartardóttir var gríðarsterk með 15. Eva Rún Dagsdóttir og Inga Sólveig Sigurðardóttir komu næstar með 8 stig hvor.
Í liði heimastúlkna var Rebekka Rán Karlsdóttir, Jónssonar Karlssonar af Hólaveginum á Sauðárkróki, langstigahæst með 24 stig og 23 framlagspunkta en næst kom Vaka Þorsteinsdóttir með 12 stig.
Tindastóll situr nú í 8. sæti með 10 stig eftir 13 leiki og Stjarnan fylgir fast á eftir með átta stig. Á botninum sitja svo Fjölnir B og Vestri með fjögur stig hvort lið. Snæfell er hins vegar í toppbaráttunni með 18 stig í þriðjasæti, jafnmörg og Þór Akureyri, sem situr sæti neðar með fleiri spilaða leiki, ÍR tveimur stigum meira en Ármann trónir á toppnum með 24 stig.
Næsti leikur Stóla verður sannkallaður nágrannaslagur þegar Þór Akureyri mætir í Síkið næsta laugardag klukkan 18:00. Þá væri gaman að sjá fólk fjölmenna á pallana og hvetja stelpurnar okkar til sigurs.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.